Kvíðin yfir því að hafa smitað einhvern í fjölskyldunni

05.08.2020 - 20:12
Mynd: Bragi Valgeirsson / RUV
Um tuttugu eru nú í sóttkví eða einangrun í farsóttarhúsinu við Rauðarárstíg í Reykjavík. Valgerður Guðný Hannesdóttir sem þarf að vera í einangrun þar fram yfir helgi segir einangrunarvistina erfiða en verst að vita til þess að hún gæti hafa smitað fleiri innan fjölskyldunnar.

Sjö eru í einangrun í farsóttahúsum hér á landi, sex í Reykjavík og einn á Akureyri. Það eru fjórir útlendingar og þrír Íslendingar. Valgerður er ein þeirra en hún greindist með Covid-19 um síðustu helgi. „Ég hélt að það hefðu orðið einhver mistök, ég var ekki alveg að kaupa það að ég væri smituð en svona er þetta. Ég dró stutta stráið,“ segir Valgerður. 

Um 170 hafa gist í farsóttahúsum frá því þau voru opnuð að nýju um miðjan júní, að sögn Gylfa Þórs Þorsteinssonar, umsjónarmanns farsóttahúsa. Flestir eru hælisleitendur, sem eru þar í einangrun í nokkra daga á milli þess sem þeir fara í skimun á landamærum og þar til þeir fara í seinni skimun. Valgerður leitaði í farsóttarhús því hún var að gera upp húsið sitt og átti ekki í önnur hús að venda. Hún segist jafnan eiga erfitt með að sitja kyrr og því sé erfitt að vera í einangrun því þá gerist lítið í íbúðinni sem hún er að gera upp á meðan. „Maður tekur bara einn dag í einu. Það er hægt að plana og pæla nógu mikið fram í tímann en það er mjög vel hugsað um mann. Maður fær bank hérna á hurðina með mat og drykki þannig að þetta eru algjörar hetjur því það er ekkert smáræði af fólki sem hefur verið hérna undanfarið.“

Valgerður hafði verið mikið með fjölskyldunni síðustu vikur, gisti hjá dóttur sinni og svaf með barnabörnin uppi í rúmi. Þau hafi þó ekki greinst með smit svo hún viti til. En Valgerður veit ekki hvernig hún smitaðist. „Nei, ég nefnilega hef ekki hugmynd. Það er töluvert af fólki sem fór í sóttkví í framhaldi af minni greiningu en það er enginn þeirra með einkenni.“ 

Hún segist ekki hafa farið á mannamót síðustu vikur og segist helst gruna að hún hafi smitast í einhverri verslunarferðinni. Það sé óþægilegt til þess að hugsa að hún hafi smitað fleiri. „Það er náttúrulega þessi kvíði við það. Sérstaklega gagnvart mömmu. Hún er í áhættuhóp en hún ber sig vel og segist ekki finna nein einkenni þannig að ég er mjög glöð yfir því. Og við erum búnar að vera mjög duglegar, ég og systur mínar og mamma að vera í myndsamtali og sprella aðeins og hlægja og halda uppi fjörinu fyrir hver aðra, hlusta á Helga og svona.“

Valgerður verður að óbreyttu laus úr einangrun eftir helgi, og er löngu farin að telja niður dagana þar til hún fær að hitta fjölskylduna. „Og svo að sjálfsögðu bara vinir mínir og allir sem að, ég á eftir að, ég ætla ekki að segja knúsa, en það verður gott að hitta fólkið mitt aftur,“ segir Valgerður. 

Bjarni Pétur Jónsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi