Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Heimsótti ókunnuga stúlku og söng ástarlag til hennar

Mynd: RÚV / RÚV

Heimsótti ókunnuga stúlku og söng ástarlag til hennar

05.08.2020 - 10:37

Höfundar

„Þetta var algjört stalker móment,“ segir Hreimur Örn Heimisson sem þekkti ekki stelpuna sem hann hafði verið að gjóa augum til, en þegar kom að því að semja íslenskan texta við nýtt ástarlag hugsaði hann til hennar og orti Dreymir sem er ein af þekktari ballöðum Lands og sona. Vinur Hreims sannfærði hann um að freista gæfunnar og banka upp á hjá stúlkunni með gítarinn.

Hreimur Örn Heimisson söngvari var einn vinsælasti tónlistamaður Íslands í kringum aldamótin þegar hljómsveit hans Land og synir hljómuðu í hverju gítarpartý, á útvarpsstöðvum landsins og hljómsveitin hélt uppi stemningunni á sveitaböllum um allt land. Hann er alinn upp í Rangárvallarsýslu í litlum bæ sem er bara ein gata og heitir Rauðalækur. „Þar ólst ég upp til tíu ára aldurs,“ rifjar Hreimur upp. Hann flutti næst í Vestur Landeyjar þar sem fjölskyldan var með svínabú, hesta og kindur. „Þá þurfti ég að vera sveitastrákur og ég elskaði það. Það er best í heiminum. Það er ekkert betra en að henda sér út að slá og vera í náttúrunni með dýrunum.

„Við Magni erum af sama sauðahúsi“

Hann er ekki eini aldamótapopparinn sem er alinn upp með búfénaði. Söngvari Á móti sól er einnig laginn í sveitamennskunni og unir sér vel í náttúrunni með hestum og kúm. „Við grínumst oft með það við Magni, við erum miklir vinir og hann er frá Borgarfirði eystra. Við náum vel saman þó bakgrunnurinn sé allt annar,“ segir Hreimur. „Við náum vel saman því við erum af sama sauðahúsi.“

„Birgitta er til ef þú ert til“

Þegar fjölskylda Hreims fluttist til Noregs árið 1998 ákvað hann að verða eftir. Hann var byrjaður í hljómsveit og hafði það á tilfinningunni að hún gæti orðið stór á Íslandi. „Það var góð ákvörðun,“ segir hann glettinn enda fór boltinn fljótlega að rúlla og um aldamótin var sveitaballastemningin í algleymingi og sveitir á borð við Land og syni, Írafár, Buttercup og Á móti sól spiluðu um allt land og ómuðu á öllum rásum.

Nýverið voru haldnir endurfundir aldamótasveitanna í Háskólabíó þegar sveitirnar tróðu upp á tvennum tónleikum fyrir fullu húsi og rifjuðu upp með öskursyngjandi áhorfendum helstu slagara aldamótanna. „Ég hafði enga trú á þessu þegar Atli í ARG hringir í mig og spyr hvort ég sé til í að taka þátt,“ viðurkennir Hreimur. „Ég held meira að segja að honum hafi tekist að ljúga með því að segja að Birgitta væri til ef ég væri til. Svo segir hann það sama við Gunna Óla, Hreimur er til ef þú ert til.“

Sest niður og hugsar til þessarar stúlku

Land og synir hafa verið starfandi með hléum í rúma tvo áratugi. Hreimur segist hafa ákveðið eftir vel heppnaða Aldamótatónleika að taka upp gítarinn að nýju og nýverið gáfu þeir út nýtt lag sem er af nýrri plötu sveitarinnar. „Þetta var hvatinn að því að gera plötu og ég er hvergi nærri hættur,“ segir hann. „Sem betur fer er þessi þörf til að semja og skapa. Ég hef alltaf haft hana en þegar maður fær þessa þörf á að láta vaða.“

Af vinsælustu lögum Hreims má nefna þjóðhátíðarlagið Lífið er yndislegt, Vöðvastæltur og ástarballöðuna Dreymir sem Hreimur samdi til ókunnugrar stúlku. „Þegar ég var ungur maður í Fjölbrautarskóla Suðurlands þá gjóaði ég augum yfir til Selfossstelpnanna. Þar var ein sem ég var svolítið skotinn í,“ rifjar Hreimur upp. „Ég hafði þann háttinn á þegar ég var sautján ára þá samdi ég lög en ég vildi vera Jet Black Joe svo það var allt á ensku. Svo eru vinir mínir að hvetja mig til að setja íslenskan texta á þetta lag og ég bara ekkert mál, sest niður og hugsa til þessarar stúlku.“

Því mig dreymir
allt um þig, þína ást

Og mig dreymir.
Öll mín tár niður vangann þinn
Og mig dreymir bara þig.
 

Svo orti Hreimur og lagið vinsæla varð til. Vini Hreims, Jóni Atla, fannst svo mikið til lagsins koma að hann hvetur Hreim til að syngja það til stúlkunnar sem samið er um. „Ég hef aldrei talað við hana,“ mótmælti Hreimur en Jón Atli leit ekki á það sem fyrirstöðu. „Förum og spilum þetta fyrir hana,“ suðar Jón sem tekst að sannfæra hreim.

„Ég fór heim til hennar og bankaði upp á. Þetta er algjört stalker móment,“ segir Hreimur. Stúlkan tók uppátækinu ekki illa en það tókust þó engar ástir með þeim eins og hefði orðið ef um væri að ræða atriði í rómantískri ástarmynd. „Þetta var pínu fallegt en alls ekki góð hugmynd.“

Lovísa Rut Kristjánsdóttir ræddi við Hreim í Morgunverkunum á Rás 2.

 

Tengdar fréttir

Popptónlist

„Sævar, ég var að spila í vitlausu brúðkaupi“

Mannlíf

Land og synir þá og nú