Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Handtekin fyrir að sveipa styttur hinsegin fánum

05.08.2020 - 17:05
epa02211928 A participant holds a rainbow flag during the 11th annual Gay Pride parade in the centre of Lisbon, Portugal, 19 June 2010.  EPA/ANDRE KOSTERS
Mynd úr safni. Mynd: EPA - LUSA
Tvær manneskjur voru í vikunni handteknar í Varsjá í Póllandi og gefið að sök að hafa vanhelgað styttur með því að sveipa þær regnbogalitum hinsegin fánum. Fólkið hefur verið látið laust úr haldi.

AFP-fréttastofan hefur eftir pólska fjölmiðlinum PAP, að talsmaður lögreglunnar í Varsjá, Sylwester Marczak, hafi sagt að handtakan hafi ekki verið framkvæmd vegna þess að fólkið hafi verið að hengja upp fána, heldur af því að talið sé að það hafi verið gert til að misbjóða tilfinningum trúaðs fólks. Hinsegin fáni var meðal annars hengdur á styttu á Jesú kristi. 

Baráttufólk í samtökunum Stop Bzdurom, eða Stöðvið ruglið, hefur sent frá sér yfirlýsingu á netinu þar sem þau segjast hafa staðið fyrir gjörningnum til að vekja athygli á stöðu hinsegin fólks í landinu. 

Pólland er meðal neðstu ríkja Evrópu í nýjustu útgáfu Regnbogakortsins. Í kortinu er lagt er mat á stöðu hinsegin fólks í Evrópu og eru 69 þættir metnir. Virðing fyrir mannréttindum í Póllandi er metin 16 prósent. Til samanburðar er staðan í Danmörku metin 68 prósent og á Íslandi 54 prósent. Andrzej Duda, nýendurkjörinn forseti Póllands, hefur líkt „hinsegin hugmyndafræði“ við kommúnisma. Þá telur forsetinn það ógn við pólsk gildi að samkynhneigðum verði heimilt að gifta sig og ættleiða börn.