Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Greinilegur galli í hönnunarkeppni Fossvogsbrúar

05.08.2020 - 22:10
Mynd:  / 
Endurtaka þarf hönnunarkeppni um brú yfir Fossvog. Úrskurðarnefnd útboðsmála felldi niðurstöðu forvals fyrri hönnunarkeppni úr gildi í júlí. Kostnaður vegna brúarinnar gæti aukist vegna þessa og framkvæmdum seinkað.

Sautján innlendar og erlendar hönnunar- og arkitektastofur sendu inn tillögur að hönnun brúarinnar í lok seinasta árs og sex voru svo valdir í sérstöku forvali til að taka þátt í hönnunarkeppninni. 
Fimm þeirra sem ekki voru valdir í forvalið kærðu valið til úrskurðarnefndar útboðsmála sem úrskurðaði að valið hafi ekki verið í samræmi við lög um opinber innkaup. Forvalsgögn hafi verið of matskennd og almenn.

Í úrskurðinum segir einnig að kærendur líti svo á að verkfræðistofan Efla hafi haft óeðlilegt forskot vegna aðkomu fyrirtækisins að deiliskipulagi við brúna og aðkomu að undirbúningi forvalsins. Einn dómnefndarmanna hafi verið stafsmaður Eflu og starfsmaður Vegagerðarinnar sem staðfesti val dómnefndar verið eigandi, stjórnarmaður og  starfsmaður Eflu þar til fyrir skömmu. Efla var eitt þeirra fyrirtækja sem valið var í forvalinu.

„Það er bara ótrúlegur málflutningur að halda svoleiðiss fram, en ég vil helst ekki tjá mig um slíkt,“ segir Guðmundur Valur Guðmundsson, framkvæmdastjóri þróunarsviðs Vegagerðarinnar.

Vegagerðin, Reykjavíkurborg og Kópavogur eru skaðabótaskyld gagnvart kærendum auk þess sem þeim var gert að greiða þeim níu hundruð þúsund krónur í málskostnað. 

„Þessi samkeppni og hönnun undirbúningur allur er hluti af undirbúningi Borgarlínu og undirbúningi stofnbrauta þannig að þetta er bara hluti af þeim eins og kaup á hönnun eða ráðgjöf eða verkum, þetta er hluti af því.“  

Þannig að þetta kemur úr sjóðum sem er eyrnamerktur Borgarlínu?

„Já, já“ segir Guðmundur.

Myndirðu segja að það hafi verið einhverjir gallar á þessu ferli?

„Úrskurðarnefndin felldi valið úr gildi, það sýnir einhvern galla á málsmeðferðinni þó að við teljum að rökstuðningurinn hafi verið málefnalegur.“ segir Guðmundur.

Hverju verður þá breytt? 

„Við erum að meta stöðuna í því.“ segir Guðmundur.