Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Fermingar enn fyrirhugaðar

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Enn stendur til að fermingar fari fram í haust að óbreyttu. Þó gætu auknar samkomutakmarkanir sett strik í reikninginn.

Fermingum var frestað í vor vegna kórónuveirufaraldursins. Að sögn Péturs Markan upplýsingafulltrúa Þjóðkirkjunnar stefna söfnuðir Þjóðkirkjunnar að því að halda óbreyttri áætlun.

Athöfnum verður fjölgað í nokkrar á hverjum degi. Þó verður fylgst vel með stöðunni næstu daga og þróun útbreiðslu veirunnar.

Velta frekar fyrir sér kjarna fermingarinnar

Fermingar eru þegar hafnar, til að mynda verður athöfn í Víðistaðasókn í Hafnarfirði í kvöld. Pétur segir að fordæmalausar aðstæður þessa árs hafi breytt viðhorfi fermingarbarnanna sjálfra.

Þau velti frekar fyrir sér skilaboðunum sem kirkjan er að færa í fermingunni sjálfri en stærð og umfangi fermingarveislunnar.

Fermingarundirbúningur vorsins 2021 er þegar hafinn auk alls þess mikla félagsstarfs sem fram fer í kirkjum landsins. Þar er í mörg horn að líta segir Pétur og kemur sér vel að hafa reynslu vorsins í farteskinu. Allt skipulag safnaðarstarfsins nú sé unnið í samstarfi við sóttvarnaryfirvöld.

Siðmennt stefnir á þrjár athafnir

Siðmennt er í ákveðinni biðstöðu að sögn Siggeirs F. Ævarssonar framkvæmdastjóra. Þó sé enn ætlunin að ferma þau ríflega 300 börn sem bíða.

Það verði gert í þremur athöfnum helgina 29. til 30. ágúst næstkomandi. „Fermingarnar verða í stórum sal tónlistarhússins Hörpu. Þannig er mögulegt er að þær verði með óhefðbundnu sniði, fámennar með mörgum andlitsgrímum og miklu spritti,” segir Siggeir.

Grundvallaratriði sé að fyllsta öryggis verði gætt við athafnirnar. Siggeir segir foreldra fermingarbarna hafa sýnt mikinn skilning enda hafi Siðmennt gert allt til að halda þeim upplýstum.

Mikil ró yfir foreldrum og ungmennum

Fríkirkjan í Hafnarfirði hélt sex fámennar fermingar á sjómannadaginn, segir Sigurvin Lárusson prestur. Enn er stefnt að því að ferma síðsumars þau 170 ungmenni sem bíða.

Sigurvin segir mikla ró yfir börnunum og aðstandendum þeirra vegna ástandsins þótt þeim sé mjög umhugað um að af fermingunum verði.