Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

„Enginn vandi að virða tveggja metra regluna í berjamó“

05.08.2020 - 13:48
Mynd með færslu
 Mynd: https://www.youtube.com/watch?v=
Útlit er fyrir góða berjasprettu víðast hvar á landinu í sumar. Þó að enn séu tvær til þrjár vikur í að berjavertíðin hefjist að fullu, hvetur berjaáhugamaður landsmenn til að líta í kringum sig og hafa ílátin klár.

Kaldur júlí kemur ekki að sök

Þrátt fyrir að júlí hafi verið fremur kaldur miðað við síðustu ár er útlit fyrir góða berjasprettu. Sveinn Rúnar Hauksson, læknir og berjaáhugamaður, segir útlit fyrir mun meiri sprettu en í fyrra. 

„Ólíkt því sem var í fyrra þegar sólin skein frá miðjum maí og fram í ágúst eiginlega látlaust. En þurrkurinn sennilega valdið því að það skyldi verða berjabrestur víða. Núna hefur þetta svona verið í bland, úðinn og hlýjan þannig að það verður varla á betra kostið. Þetta á við held ég víðast hvar á landinu,“ segir Sveinn Rúnar. 

Tvær til þrjár vikur í góð ber

Sveinn segir að þó útlitið sé gott verði fólk að bíða í nokkra daga í viðbót áður en það kemst í góð ber. 

„Kannski eru enn eftir tvær til þrjár vikur í að fá góð ber.“

Myndir þú segja að það væri almennt séð yfir landið að það séu tvær, þrjár vikur í að fólk geti farið á stjá?

„Ég gæti trúað því, svona ef maður vill komast í góðan berjamó en það er alveg óhætt að fara að líta í berjamó fyrr og hafa ílátin klár.“

Hann segir berjamó vera fullkomna afþreyingu á tímum samkomutakmarkana. 

„Það er allavegana enginn vandi að virða tveggja metra regluna í berjamó og ég held að maður gleymi sér hvergi betur en í berjamó.“

Mynd með færslu