Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Aukning í nýskráningu bíla í júlí

Mynd með færslu
 Mynd: Pixabay
Ríflega 44% fleiri nýjar fólksbifreiðar voru skráðar í júlí í ár en í sama mánuði í fyrra. Í júlí voru skráðir 1.480 nýir bílar en rétt rúmlega eitt þúsund 2019. Nýskráningum bílaleigubíla hefur fækkað umtalsvert það sem af er ári eða sem nemur 59,1%.

Þetta kemur fram á vef Bílgreinasambandsins.

Einstaklingar og fyrirtæki hafa alls keypt 6,1% færri bíla í ár en fyrra  þrátt fyrir aukninguna í júlí. Að öllu samantöldu hafa 5.673 nýir fólksbílar verið keyptir á árinu sem er ríflega 30% minna en í fyrra. Bílgreinasambandið rekur samdráttinn fyrst og fremst til COVID-19.

Hjá bíla- og tækjafjármögnun Landsbankans kemur fram að í júní og júlí hafi næstum jafnmörg lán verið veitt til bifreiðakaupa og samanlagt alla fyrri mánuði ársins. Það er met.

Í Morgunblaðinu í morgun var haft eftir Arnbirni M. Rafnssyni forstöðumanns deildarinnar hjá bankanum, að um 80% lánveitinga væru til kaupa á notuðum bílum. Ólíkt liðnum óvissutímum hafi ekki orðið samdráttur í lánum til bíla- og tækjakaupa vegna kórónuveirufaraldursins.