Vitni grefur undan frásögn Andrésar í Epstein-máli

04.08.2020 - 19:10
epa08005338 (FILE) Britain's Prince Andrew, Duke of York arriving at Murdoch University in Perth, Western Australia, Australia, 02 October 2019.  Prince Andrew is facing a backlash following his Newsnight interview in which he defended his friendship with Jeffrey Epstein after lawyers who represent 10 of the billionaire predator?s victims branded the royal unrepentant and implausible and demanded that he speak to the FBI.  EPA-EFE/RICHARD WAINWRIGHT AUSTRALIA AND NEW ZEALAND OUT
 Mynd: EPA
Vitni hefur gefið sig fram við lögmann sex brotaþola í máli bandaríska barnaníðingsins Jeffrey Epsteins. Vitnið segist hafa séð Andrés prins með einni af stúlkunum sem Epstein hélt í mansali á skemmtistaðnum Tramp í Mayfair. Andrés hefur haldið því fram að hann hafi aldrei hitt umrædda stúlku og þaðan af síður verið á þessum skemmtistað því þennan dag hafi hann setið að snæðingi með dóttur sinni á pizzustað í Woking.

Virginia Guiffre hefur haldið því fram að Andrés prins hafi haft samræði við hana þrisvar, fyrst þegar hún var 17 ára.

Andrés hefur neitað öllum ásökunum. Guiffre hefur lýst því mjög nákvæmlega hvernig hún dansaði við prinsinn á skemmtistaðnum Tramp í Mayfair og minntist þess sérstaklega hversu sveittur hann hefði verið. 

Í frægu viðtali við BBC sagðist Andrés aldrei hafa hitt Guiffre og hefði sannarlega ekki verið með henni á umræddum skemmtistað. Hann hefði verið á pizzustað í Woking með dóttur sinni. 

En nú hefur vitni stigið fram og lýst því hvernig hún sá prinsinn og Guiffre saman á staðnum ásamt Ghislaine Maxvell, þáverandi kærustu Jeffrey Epstein. „Skjólstæðingur minn segist hafa verið á staðnum og að hún muni þetta vel þar sem þetta var í fyrsta og eina skiptið sem hún sá einhvern aðalsborinn,“ hefur Guardian eftir Lisu Bloom, lögmanni vitnisins og sex annarra brotaþola í máli Jeffrey Epstein. „Vitnið segir að Andrés hafi verið ánægður en Virginia ekki.“

Bloom kveðst hafa afhent FBI þessar upplýsingar en fengið þau svör að ekki væri þörf á þeim. Stofnunin hefði allt sem hún þyrfti. Í viðtali við breska blaðið The Sun segist vitnið, Shukri Walker, að hún hafi ákveðið að stíga fram eftir að BBC sýndi viðtalið við prinsinn.  

Konungshöllin neitar öllum ásökunum. Getgátur um að prinsinn hafi sýnt af sér óæskilega hegðun í garð ólögráða einstaklings séu ósannar. 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi