Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Skoða leiðir til að takmarka fjölda ferðamanna

04.08.2020 - 13:51
Mynd með færslu
 Mynd: Almannavarnir
Stjórnvöld skoða nú leiðir hvernig hægt er að takmarka fjölda þeirra ferðamanna sem koma til landsins. Þetta kom fram í máli Þórólfs Guðnasonar, sóttvarnalæknis, á upplýsingfundi almannavarna. Hann sagði helsta áhyggjuefnið núna vera að farþegarnir væru orðnir fleiri en skimunin á landamærunum réði við. Hann ítrekaði að þessi skimun hefði sannað gildi sitt og mikilvægt væri að halda henni áfram.

Fram kom í hádegisfréttum RÚV að þríeykið hefði fundað með ríkisstjórninni í morgun ásamt Páli Þórhallssyni, verkefnastjóra landamæraskimunar í Keflavík.

Þórólfur sagði að verið væri að semja reglugerð í samgönguráðuneytinu um það hvernig þetta væri hægt með tilliti til íslenskra laga og alþjóðlegra skuldbindinga.  Sín tillaga væri sú að áfram væri hægt að takmarka áhættuna af því að veiran kæmi til landsins og að hægt verði að gera það sómasamlega með hröðum og öruggum hætti. 

Þórólfur lagði samt áherslu á að það væri ákvörðun stjórnvalda hvort farið yrði eftir þessum tillögum og þeirra að bera ábyrgð á því.  Hann sagði sín sjónarmið fyrst og fremst byggjast á sóttvörnum og að koma yrði þeim á framfæri með skýrum hætti. „Við verðum að vera skýr hver sé fyrsti valkostur.“ 

Þrír greindust með innanlandssmit í morgun og Þórólfur upplýsti að tveir af þeim hefðu verið í sóttkví. Það hefði verið ánægjulegt. Það væri líka gleðilegt að færri hefðu greinst með smit nú en síðustu daga. Það væri þó of snemmt að fagna því það yrðu að líða nokkrir dagar þar til það sæist árangur af þeim aðgerðum sem gripið hefði verið til. 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV