Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Skemmtanahald helgarinnar í heimahúsum og görðum

Mynd með færslu
 Mynd: Ólöf Ragnarsdóttir - RÚV
Verslunarmannahelgin fór víðast vel fram að sögn lögreglu. Þó nokkuð var um að fólk væri á ferðinni þó hefðbundnum hátíðarhöldum hafi verið aflýst.

Eitthvað var um ölvunarakstur og hávaðaútköll vegna partíhalds í heimahúsum og stöku fíkniefnamál komu inn á borð lögreglu.

Að sögn lögreglunnar á Suðurlandi voru margir í sumarhúsum og á stærri tjaldsvæðum, þar sem þess var vel gætt að sóttvarnarreglur væru virtar. „Fólk á hrós skilið fyrir,“ segir Sveinn Kristján Rúnarsson, yfirlögregluþjónn á Hvolsvelli.

Þó nokkur fjöldi ferðamanna var á Akureyri um helgina þó fjöldinn hafi, líkt og annars staðar,  verið umtalsvert minni en undanfarin ár. Að sögn Aðalsteins Júlíussonar, starfandi aðalvarðstjóra, var hóflegur fjöldi ferðafólks í bænum.

Nokkur erill var hjá lögreglu. „Það var aðallega eftir að stöðum lokaði í bænum, þá færðust samkvæmi í heimahús og -garða. Þannig að það varð talsverður erill bæði vegna hávaða og vegna þess þar sem við töldum að það væru kannski of margir saman komnir á litlu svæði,“ segir hann. Engar líkamsárásir komu inn á borð lögreglunnar á Akureyri, en eitt fíkniefnamál þar sem grunur leikur á sölu fíkniefna.

„Síðan voru þetta fíkniefna- og ölvunarakstur og einhver minniháttar vörslumál,“ bætir hann við.

Skrýtin verslunarmannahelgi án þjóðhátíðar

Þó engin Þjóðhátíð væri haldin í Vestmannaeyjum þetta árið var nokkuð um að fólk kæmi í dagsferð til Eyja. Einnig var nokkuð um að brottfluttir Vestmanneyingar snéru aftur, en töluvert var um að fólk slægi upp tjöldum í görðum heimahúsa og gerði sér glaðan dag.

Tryggvi Ólafsson lögreglufulltrúi í Vestmannaeyjum segir helgina óneitanlega hafa verið skrýtna.

„Þetta er mjög skrýtin helgi upp á það að gera að vera ekki að vinna á þjóðhátíð, með öllu því ati sem því fylgir,“ segir hann og kveður fjöldasamkomur á borð við þjóðhátíð ekki samræmast kórónuveirunni. Eyjamenn hafi engu að síður gert sér glaðan dag.

„Fólk var að tjalda í görðum og hittast og gera sér glaðan dag, en það voru engin teljandi mál sem komu upp þannig séð.“ Á milli fimm og sex fíkniefnamál hafi komið inn á borð lögreglu en enginn ofbeldisbrot. „Þannig að þetta er mjög merkileg helgi upp á það að gera. Yfirleitt hefur verið töluvert að gera í ofbeldismálum einmitt eftir þessa helgi og vinna við þessi mál fram á haust en það verður ekki í ár.“

Að sögn Tryggva voru þó einhver brögð að því að tveggja metra reglan væri brotin. „Fólk var alltof nálægt hvort öðru, það er bara þannig. Áfengi hefur þessi áhrif að fólk gleymir sér.“