Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Síðasta úrræðið að takmarka fjölda ferðamanna

04.08.2020 - 19:02
Mynd með færslu
 Mynd: Hjalti Haraldsson - RÚV
Takmörkun á fjölda ferðamanna til landsins væri síðasta úrræðið sem samgönguráðherra myndi vilja grípa til kæmi upp sú staða að fleiri ferðamenn kæmu hingað en þeir rúmlega tvö þúsund sem heilbrigðiskerfið nær nú að

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði á upplýsingafundi almannavarna í dag að það væri áhyggjuefni að ferðamenn væru orðnir fleiri en skimun á landamærum réði við. Hann ítrekaði að þessi skimun hefði sannað gildi sitt og mikilvægt væri að halda henni áfram.

Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra segir heimild í lögum á grundvelli ríkra almannahagsmuna vegna sóttvarna að takmarka flug með einhverjum hætti. „Það hlýtur að verða síðasta leiðin sem við förum við hljótum að skoða aðrar leiðir einfaldlega vegna þess að lífsafkoma mjög margra byggist á því að við reynum að halda efnahagslífinu gangandi, að því gefnu að við séum búin að lágmarka áhættuna, sem mér finnst reynslan, sem segir okkur fimmtán virk smit af sjötíu þúsund skimunum, vera mjög skýrt dæmi um,“ segir Sigurður Ingi.

Spurður hvaða aðrar leiðir séu færar segir hann auðvitað æskilegast að auka skimunargetuna. Einnig hafi verið vonast til þess að hægt yrði að bæta fleiri löndum á lista yfir örugg lönd, en aukinn fjöldi smita víða um heim dragi úr líkum á því að það verði hægt á næstunni.  „Það er möguleiki að skima og greina yfir aðeins lengri tíma ef það er mikill mismunur á milli daga og vonandi verður hægt að eiga við það en eins og ég segi, við erum að skoða alla mögulegar leiðir í því skyni að hafa stjórn á stöðunni,“ segir hann.

Komi til þess að þurfa að takmarka komu ferðamanna til landsins segir Sigurður Ingi að jafnræðissjónarmið og meðalhóf verði haft í fyrirrúmi þegar ákvarðanir verði teknar um hverjir fái ekki að koma hingað.

„En fyrst og fremst myndu menn horfa á þau rauðu svæði þar sem áhættan væri meiri og kannski væri hægt að áhættumiða það út frá sóttvörnum.“