Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Jarðskjálfti af stærð 3,3 fyrir norðan

04.08.2020 - 16:12
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Jarðskjálfti af stærð 3,3 varð tæpum 17 kílómetrum norðvestur af Gjögurtá við mynni Eyjafjarðar, klukkan kortér yfir þrjú í dag. Upptök skjálftans voru tuttugu kílómetrum frá bæði Siglufirði og Ólafsfirði. Að sögn náttúruvársérfræðings á Veðurstofu Íslands er skjálftinn hluti af hrinu sem staðið hefur yfir í mynni Eyjafjarðar frá því 19. júní.

Skjálftinn er sá stærsti sem mælst hefur á svæðinu í rúmar tvær vikur. Ekki er útilokað að skjálftinn hafi fundist í byggð. Að sögn náttúruvársérfræðings eru þó yfirleitt minni líkur á að skjálftar finnist ef þeir verða um miðjan dag heldur en á þeim tímum dags þegar rólegra er yfir.

Hann segir að hrinan við mynni Eyjafjarðar hafi verið á niðurleið síðustu vikur en fjöldi skjálfta á sólarhring er umtalsvert minni nú en snemma í hrinunni. Ekki sé óeðlilegt að hrina af þessu tagi standi svo lengi yfir, til að mynda stóð afar löng skjálftahrina yfir á sömu slóðum haustið 2012. Ómögulegt sé hins vegar að segja til um hvenær hrinan sem nú stendur yfir tekur enda.