Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Hæstiréttur tekur fyrir mál Júlíusar Vífils

04.08.2020 - 13:28
Mynd með færslu
 Mynd: Kikkó - RÚV
Hæstiréttur hefur veitt Júlíusi Vífli Ingvarssyni, fyrrverandi borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, leyfi til að áfrýja dómi sínum. Júlíus Vífill var í Héraðsdómi Reykjavíkur dæmdur í tíu mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir peningaþvætti. Landsréttur staðfesti þann dóm í maí.

Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur kom fram að sannað þótti að Júlíus Vífill hefði brotið gegn skattalögum með því að telja ekki fram tekjur sem hann síðar flutti á milli reikninga í aflandsfélögum erlendis.

Ekki var hins vegar ljóst hvenær þau brot hefðu verið framin og ekki var ákært fyrir skattalagabrot. Júlíus Vífill var ákærður fyrir peningaþvætti, fyrir að flytja féð milli reikninga og það svo nýlega að brotin væru ekki fyrnd. Fyrir það var hann því sakfelldur.

Í málskotsbeiðni sinni segir Júlíus að Landsréttur hafi í dómi sínum beitt aðferðum við sönnunarmat sem ekki eigi sér stoð í réttarframkvæmd eða viðurkenndum reglum sakamálaréttarfars.  

Þá telur hann að ætlað brot sitt hafi verið fyrnt. Lagatúlkun Landsréttar á því hafi hvorki samræmst dómaframkvæmd né skrifum fræðimanna. Hann segir jafnframt að svokallað sjálfsþvætti hafi ekki verið refsivert þegar ætlaður ávinningur féll til og því hafi ekki verið heimilt að refsa honum fyrir það brot vegna banns um afturvirkni refsingar.

Meðal uppljóstrana í Panamaskjölunum vorið 2016 var að Júlíus Vífill tengdist aflandsfélögum. Hann sagði af sér sem borgarfulltrúi á fyrsta fundi borgarstjórnar eftir að þáttur Kastljóss sem byggði á Panamaskjölunum var sendur út í byrjun apríl.

Í framhaldi hóf héraðssaksóknari rannsókn á meintum skattsvikum og peningaþvætti Júlíusar. Rannsókninni lauk með ákæru fyrir peningaþvætti upp á 131 til 146 milljóna króna.