Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Grímuklæddir þjófar stela fjölda myndavéla

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson
Brotist var inn í ljósmyndavöruverslun í austurhluta borgarinnar í gærkvöldi eða nótt og höfðu þjófarnir fjölda myndavéla á brott með sér.

Fram kemur í dagbók lögreglu að tveir grímuklæddir menn hafi þar verið að verki, en málið er nú til rannsóknar.

Alls voru 72 mál bókuð hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu á tímabilinu frá því fimm síðdegis í gær og þar til klukkan fimm í morgun. Þrír voru vistaðir í fangageymslu og þá hafði lögregla afskipti af fjórum sem grunaðir voru um akstur undir áhrifum áfengis og fíkniefna og lauk einu þeirra mála með eftirför lögreglu

Tilkynnt hafði verið um ökumann sem talinn var geta verið undir áhrifum vímuefna. Ökumaðurinn sinnti ekki tilmælum lögreglu um að stoppa og þurfti lögregla því að veita bílnum eftirför stutta stund. Eftir að hafa ekið inn í botnlanga reyndu karl og kona sem bílnum höfðu verið að flýja á hlaupum.

Þau voru handtekin skömmu síðar og kom þá í ljós að bílnum hafði verið stolið og að ökumaðurinn var undir áhrifum fíkniefna.

Anna Sigríður Einarsdóttir