Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Fjárhagsleg endurskipulagning háð hlutafjárútboði

04.08.2020 - 06:19
Mynd með færslu
 Mynd: Rúv
Allir angar fjárhagslegrar endurskipulagningar Icelandair eru háðir því að hlutafjárútboð sem stefnt er að í ágúst gangi vel.

Morgunblaðið hefur þetta eftir Boga Nils Bogasyni forstjóra fyrirtækisins í dag.

Útboðið hefur verið í undirbúningi án þess að formlegar viðræður séu hafnar. Icelandair sagði frá því á föstudag að samningar hefðu náðst við flesta kröfuhafa en viðræður við Íslandsbanka, Landsbanka og ríkið væru vel á veg komnar.

Ekki liggur fyrir að skilyrði hafi verið sett um, hve háa fjármögnun þurfi að tryggja, til að lán fáist. Bogi segir unnið að því.

Stefnt sé að því að ljúka samkomulagi í vikunni við íslensku bankana um lánveitingar auk Boeing um bætur vegna Max vélanna.

Allir þræðir málsins hafa áhrif hver á annan að sögn Boga. Morgunblaðið hafði ekki náð í fulltrúa ríkisstjórnarinnar en Birna Einarsdóttir bankastjóri Íslandsbanka lét aðeins hafa eftir sér að viðræður væru í gangi við Icelandair.