Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Baráttan við veiruna langhlaup en ekki spretthlaup

04.08.2020 - 18:28
Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Forsætisráðherra segir að setja verði á stofn samráðsvettvang vegna kórónuveirunnar. Fjármálaráðherra segir að ekki verði farið í niðurskurð, heldur verði halla leyft að myndast til að verja störf. Verið sé að vinna með ýmsar sviðsmyndir.

Þríeykið svokallaða átti fund með ríkisstjórninni í morgun um stöðumat vegna COVID-19.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að þetta hafi verið upplýsingafundur.  „En fyrst og fremst vorum við bara að fara yfir þetta stöðumat og við sjáum auðvitað fram á að þessi faraldur er aftur kominn á flug alls staðar í kringum okkur í heiminum. Það er mörgum spurningum hins vegar ennþá ósvarað hvort að veiran er að taka einhverjum breytingum eða hvað, en það er alveg ljóst að við þurfum áfram að vera mjög á varðbergi gagnvart kórónuveirunni.“

Sóttvarnalæknir hefur lýst áhyggjum yfir minni þolinmæði gagnvart aðgerðum. Forsætisráðherra tekur undir það, í vetur og vor hafi verið erfiður tími, en fólk hafi tekið tilmæli alvarlega, en rétt sé að minna á að baráttan sé langhlaup en ekki spretthlaup.

Fólk þurfi að lifa með veirunni en um leið að vera reiðubúið að taka stjórnina ef veiran fer á flug. Koma þurfi upp kerfi sem er á verði gagnvart veirunni næstu mánuði að minnsta kosti. Sóttvarnalæknir hefur lagt til samráðsvettvang vegna margvíslegra áhrifa faraldursins. „Við munum þurfa að gera það. Við munum þurfa að vera með reglulegan samráðsvettvang því þetta hefur auðvitað víðtæk áhrif á samfélagið allt. En stóra verkefnið er annars vegar að halda þessari stjórn og hins vegar að samfélagið geti áfram gengið eins mikið sinn vanagang og mögulegt er.“

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir ekki stefnt að niðurskurði. „Við ætlum að nota styrk ríkisfjármálanna til  þess að bregðast við þessum aðstæðum. Það er uppi áfram töluvert mikil óvissa en við höfum sagt að við ætlum ekki að fara í niðurskurð heldur sækja fram með nýja fjárfestingu og við ætlum að leyfa hallanum að myndast vegna þess að við teljum að það verði á endanum til þess að bjarga flestum störfum.“

Ýmsar sviðsmyndir voru settar upp þegar faraldurinn hófst og segir Bjarni slíkt einnig í gangi núna.

 

holm's picture
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV