13% meiri umferð í júlí en í júní

04.08.2020 - 17:37
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Umferðin á Hringveginum í júlí var 13% meiri en í júnímánuði og 3,4% minni en í júlí í fyrra. Þetta kemur fram í nýrri samantekt Vegagerðarinnar. Þar segir að yfir allt árið gæti umferðin á hringveginum verið 10% minni í ár en í fyrra. Sunnudagar eru þeir vikudagar þar sem umferð hefur dregist mest saman og frá áramótum hefur umferð dregist saman um 12,1% miðað við sama tímabil í fyrra.

Það er langmesti samdráttur sem mælst hefur miðað við árstíma, samkvæmt samantekt Vegagerðarinnar, eða tvöfalt meiri en á milli áranna 2010 og '11 þegar umferð hafði dregist saman um 6,2% frá áramótum á sama tíma.

Mesti samdráttur í umferð á milli ára varð á Austurlandi, þar var umferðin í nýliðnum júlímánuði 8,3% minni en hún var í júlí í fyrra. Minnsta breytingin varð á höfuðborgarsvæðinu þar sem umferðin var 0,9% minni í júlí í ár en í fyrra.

Þegar einstakir staðir voru skoðaðir í stað landshluta kom í ljós að 0,4% meiri umferð var á Hellisheiði í júlí í ár en í sama mánuði í fyrra og var það eini staðurinn þar sem umferðin jókst á milli ára.  Mesti samdráttur á einstökum stað var á Mývatnsheiði, þar sem 26,3% færri bílar fóru um.

 

annalth's picture
Anna Lilja Þórisdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi