Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Undirbúa heimild til þess að sekta strætófarþega

03.08.2020 - 16:45
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink RÚV - RÚV Anton Brink
Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið hefur birt áform um breytingu á lögum um farþegaflutninga og farmflutninga á landi. Í frumvarpinu verður lagt til að unnt verði að leggja févíti á þá farþega sem virða ekki reglur um greiðslu fargjalds, aðgangstakmarkanir, notkun aðgangskorta, umgegni eða aðra þætti í þjónustu rekstraraðila reglubundinna farþegaflutninga.

Áformin eru meðal annars tilkomin vegna fyrirhugaðra breytinga á greiðslukerfi Strætó bs. Félagið vinnur nú að nýrri greiðslulausn sem ber heitið Klappið. Með innleiðingu kerfisins munu vagnstjórar hætta að taka við greiðslu fargjalds og unnt verður að ganga inn í vagninn bæði að framan og aftan. Fyrir vikið hefur vagnstjórinn ekki lengur yfirsýn yfir greiðslur fargjalda. Nákvæm upphæð sektanna liggur ekki fyrir en hún verður sennilega í samræmi við það sem gengur og gerist í nágrannalöndunum, eða á bilinu 10 til 15 þúsund krónur. 

Samkvæmt upplýsingum frá Strætó mun nýja kerfið að óbreyttu koma í gagnið um áramótin. Hægt verður að greiða með smáforriti og debetkorti en ekki með reiðufé. Einnig verða seldir miðar sem farþegar bera upp að skynjurum þegar þeir ganga um borð. Samkvæmt upplýsingum frá Strætó mun gjaldskrá sömuleiðis vera uppfærð um áramótin. 

„Til að styðja við og framfylgja þessari þróun er því áformað að leggja til í frumvarpi til breytinga á lögum um farþegaflutninga og farmflutninga á landi, nr. 28/2017 að rekstraraðila reglubundinna farþegaflutninga verði heimilt að leggja févíti á þá sem koma sér undan gjaldi eða misnota kerfið á einhvern hátt með tilheyrandi tekjutapi fyrir rekstraraðilann,“ segir um áformin í Samráðsgátt stjórnvalda. 

Rekstarleyfi verði ekki forsenda ferðaþjónustuleyfis

Einnig er fyrirhugað að gera þær breytingar að almennt rekstrarleyfi verði ekki lengur eitt af þeim skilyrðum sem umsækjandi ferðaþjónustuleyfis þarf að uppfylla. Í áformunum segir að eitt af skilyrðum rekstrarleyfis sé að hafa fullnægjandi fjárhagsstöðu. Fyrirtæki sem sækja um rekstrarleyfi þurfi að hafa eigið fé og sjóði sem jafngilda rúmri 1,1 milljón króna fyrir fyrsta ökutæki og 640 þúsund krónur á hvert ökutæki umfram það. 

„Þar sem rekstur á grundvelli ferðaþjónustuleyfis er mun minni í sniðum en rekstur á grundvelli rekstrarleyfis enda um fólksbifreiðar að ræða þykir rétt að leggja til að slakað verði á kröfum um fjárhagsgrundvöll vegna útgáfu ferðaþjónustuleyfis. Því er áformað að leggja til að ekki þurfi lengur að hafa rekstrarleyfi til að fá útgefið ferðaþjónustuleyfi,“ segir í Samráðsgáttinni. 

Hægt er að senda inn umsögn um áformin á Samráðsgátt stjórnvalda. Umsagnarfrestur er til 14. ágúst.