Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Svíar slegnir vegna dráps á tólf ára stúlku

03.08.2020 - 15:41
epa08581883 People gather at the site where a twelve-year old girl was shot dead early 02 August 2020, at a motorway service area in Botkyrka, south of  Stockholm, Sweden, 03 August 2020. According to unconfirmed reports the teenage girl was hit by a stray bullet and had not been the intended target.  EPA-EFE/STINA STJERNKVIST  SWEDEN OUT
 Mynd: EPA-EFE - TT NEWS AGENCY
Svíar eru slegnir vegna andláts tólf ára stúlku sem varð fyrir byssuskoti í Botkyrka í Suður-Stokkhólmi í gær. Lögregla var kölluð út klukkan hálf fjögur aðfaranótt sunnudags vegna skothávaða við bensínstöðina E4 Norsborg og skömmu síðar fannst stúlkan helsærð. Hún var flutt á sjúkrahús þar sem hún lést af sárum sínum. Stúlkan hafði verið á gangi með hundinn sinn er hún varð fyrir skotinu.

Enginn er í haldi vegna árásarinnar en samkvæmt sænska ríkisútvarpinu leggur lögreglan allt kapp á varpa nánara ljósi á atburðarás gærdagsins. Lögreglan hefur í því skyni falast eftir myndbandsupptökum úr eftirlitsmyndavélum skyndibitastaðarins McDonalds. Þá hefur hún óskað eftir upplýsingum um hvítan skutbíl sem mögulega var fararskjóti ódæðismannanna. Talið er að þeir hafi skotið úr bílnum á ferð. 

Stúlkan var ekki skotmarkið

Talið er að ásetningur árásarmannanna hafi ekki staðið til þess að verða stúlkunni að bana. Lögreglan vill ekki upplýsa fjölmiðla um hið raunverulega skotmark en líkur eru taldar á að skotið hafi verið ætlað tveimur meðlimum glæpagengis.

Sænska ríkisútvarpið hefur eftir afbrotafræðingnum Ardavan Khoshnood að fimmtán manneskjur sem standa alfarið utan gengjaátaka hafi týnt lífi á þennan hátt síðastliðinn áratug. Þar á meðal hafa þrjú börn látist. Khoshnood segir að aðgerðir stjórnvalda  til þess að draga úr gengjaofbeldi hafi ekki borið tilætlaðan árangur í Svíþjóð, að Malmö undanskilinni. 

Árásin óvirðing við mannslíf

Palle Nilsson, aðstoðarlögreglustjóri lögreglunnar í Stokkhólmi, sagði í samtali við dagblaðið Dagens Nyheter að ódæðið endurspegli ótrúlega óvirðingu við líf annarra. Hann lagði áherslu á að samfélagið allt þyrfti að axla ábyrgð. „Þetta er algjörlega óásættanlegt og ljóst að allir þurfa að gera meira til þess að koma í veg fyrir að svona lagað geti gerst. Samfélagið þarf að veita stuðning og hjálpa börnum og ungu fólki sem þvælist inn á áhættusvæði. Við getum ekki yfirfært alla þá ábyrgð á foreldrana,“ sagði hann. 

Kertasveigur hefur verið lagður við vettvang glæpsins og íbúum í hverfinu hefur verið boðið að sækja kyrrðarstund í kirkju.

Vinir og ættingjar stúlkunnar lýsa henni sem kærleiksríkri, félagslyndri og lífsglaðri. „Hún var elskuð og sjálf bar hún umhyggju fyrir öllu og öllum. Þótt hún hafi verið lítil stelpa, þá spurði hún okkur sem eldri voru hvernig við hefðum það. Hún var okkur allt. Það er hræðilega sorglegt að svona lagað geti gerst. Þetta er óhugsandi,“ sagði fjölskylduvinur í samtali við sænska ríkisútvarpið. Hann bætti við að ósanngjarnt væri að gagnrýna foreldra stúlkunnar fyrir að hafa leyft henni að vera úti um miðja nótt. „Það er sumar, þú ættir að geta farið út að ganga með hundinn þinn án þess að nokkuð komi fyrir þig,“ sagði hann.

Nína Hjördís Þorkelsdóttir
Fréttastofa RÚV