Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Suðurnesjabúar flykkjast til læknis í Reykjavík

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Einn af hverjum sex íbúum á Suðurnesjum er skráður á heilsugæslustöð á höfuðborgarsvæðinu. Formaður félags heimilislækna telur þetta skrifast á læknaskort og bága fjárhagsstöðu HSS. Grundvallarmunur sé á rekstrarumhverfi heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni. 

Einn af hverjum sex leita annað

Á Suðurnesjum búa rúmlega 28000 manns í fjórum sveitarfélögum, þar af eru 4000 skráðir á heilsugæslu á höfuðborgarsvæðinu, 14% íbúa. Raunin er sú að á hverri einustu heilsugæslustöð á höfuðborgarsvæðinu er að minnsta kosti skráðir 60 skjólstæðingar búsettir á Suðurnesjum, sums staðar eru þeir hátt í 700 talsins. Ekki er hægt að fullyrða um hvers vegna stór hluti íbúa svæðisins velur að skrá sig annars staðar en á heilsugæslu HSS, sumir vinna kannski á höfuðborgarsvæðinu - en þetta gæti líka haft eitthvað með þjónustuna að gera. Það hefur verið mikill læknaskortur hjá stofnuninni og fréttastofa fjallaði nýlega um blendin viðhorf íbúa til þjónustunnar. Margir kvarta yfir skorti á eftirfylgni, oft sé löng bið eftir læknisviðtali og ekki í boði að fá fastan heimilislækni. 

Sjúklingar þurfi lækni sem þekkir þá

Salóme Ásta Arnardóttir, formaður félags íslenskra heimilislækna, segir að það væri æskilegt að fólk gæti skráð sig hjá heimilislækni en það sé ekki alls staðar hægt. „Sums staðar hafa heilsugæslurnar ekki tækifæri til að skrá skjólstæðinga sína á heimilislækna vegna mönnunar, vegna þess að það vantar heimilislækna.“

Þetta sé raunin á HSS og víðar á landsbyggðinni. Það sé þó líka til í dæminu að læknar velji að sinna sjúklingahópnum í sameiningu í stað þess að vera með fasta skjólstæðinga. 

Meirihluti íbúa hbs með heimilislækni

Á höfuðborgarsvæðinu er annað uppi á teningnum, þar er meirihluti fólks með fastan lækni, 67%. Óskar Reykdalsson, forstjóri heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir stefnt að því að ná hlutfallinu upp í 75%. Mestu skipti að fólk sem þarf mikið á þjónustunni að halda sé með fastan lækni. Salóme tekur undir það. „þeir sem eru með einhverja undirliggjandi sjúkdóma og þurfa reglulegt eftirlit þurfa að þekkja lækninn sinn.“ Hún telur þó ekki hægt að setja skilyrði um að fólk eigi rétt á heimilislækni. 

Grundvallarmunur á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni

Salóme telur ásókn Suðurnesjamanna í heilbrigðisþjónustu á Höfðuborgarsvæðinu skýrast af fjárhagsvanda HSS. Íbúum á svæðinu hafi fjölgað hratt og fjárframlögin ekki haldið í við þróunina. Salóme bendir á að grundvallarmunur sé á rekstragrundvelli heilsugæslustöðva á landsbyggðinni annars vegar og höfuðborgarsvæðinu hins vegar. „Á höfuðborgarsvæðinu var, fyrir tveimur eða þremur árum, tekið upp kerfi þar sem fjármagn fylgir fjölda skjólstæðinga sem eru skráðir á stöðina. Þetta kerfi hefur ekki enn verið tekið upp á landsbyggðinni. Ég veit það hefur staðið til og ég held að það myndi til dæmis hjálpa heilsugæslu HSS, að það væri einhvers konar samhengi á milli fjármagnsins sem þeir fá og fjölda skjólstæðinga.“

 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV