Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Segir stöðuna líta út eins og byrjun á faraldri

03.08.2020 - 12:52
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Prófessor í líftölfræði segir of snemmt að segja hvort önnur COVID bylgja sé byrjuð en útlitið sé eins og byrjun á faraldri. Átta ný innanlandssmit greindust í gær en ekki er vitað hvort viðkomandi hafi verið í sóttkví.

Ekki er ljóst hvort þeir sem greindust núna hafi verið í sóttkví. 3.240 sýni voru tekin í gær, þar af 2.035 við landamærin og er þetta mesti sýnafjöldi sem tekinn hefur verið frá því að landamæraskimun hófst.

Thor Aspelund prófessor í líftölfræði við Háskóla Íslands og teymi hans reiknuðu með mikilli nákvæni í vor hvernig faraldurinn myndi þróast. Thor hefur birt á Facebooksíðu sinni samanburð á stöðunni núna og eins og hún þróaðist í vor.

„Já, það segir mér að nú þurfum við að fara varlega því þetta er eitthvað komið af stað aftur. Þetta er eitthvað dreift og lítur bara út svona eins og byrjun á faraldri, þannig að það er eitthvað nýtt í kortunum.“
 

Er of snemmt að kalla þetta bylgju, eða hvert er þitt mat?
„Ég myndi ekki alveg þora að fullyrða það núna, ég myndi þurfa að sjá svona viku í viðbót af gögnum, við erum náttúrleg með fáa einstaklinga hér og þetta eru í sjálfu sér tölulega ekki mörg smit. Samt er mynstrið eins og við byrjuðum síðast, já það liggur alveg í loftinu að þetta gæti orðið önnur bylgja, en ég myndi ekki þora að slá því föstu fyrr en eftir viku.“
 

Er eitthvað hægt að gera sér grein fyrir, út frá tölunum eins og þær eru núna, hvernig þetta mun hitta á heilbrigðiskerfið?
„Það er einmitt stóra spurningin núna og munum við fara að sjá fleiri innlagnir. Það er bara komin ein núna og við erum byrjuð aftur háskólateymið að vakta þetta og meta þetta, þannig að það er ekki alveg komin niðurstaða um það heldur.“

Thor  segir að á næstunni verði birt spálíkan á síðunni covid.hi.is. Þótt of snemmt að spá nýrri bylgju sé full ástæða til að fara mjög varlega.

„Já, og eitthvað gæti þetta verið lúmskara líka núna þannig að það er eins gott að fara varlega og kannski erum við lika að sjá dreifingu um landið öðruvísi en síðast, við eigum eftir að rýna í það. Þannig að það er fullt að skoða núna og eins gott, ég ítreka það, að taka þessu mjög alvarlega núna.“

Íslensk erfðagreining var með hópskimun á Akranesi um helgina og að sögn Kára Stefánssonar forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar voru öll sýnin neikvæð.

Langflestir þeirra sem eru í einangrun núna eru á höfuðborgarsvæðinu eða 57 og 524 í sóttkví og á Vesturlandi eru níu í einangrun og 46 í sóttkví. Enn hefur ekkert smit greinst á Austurlandi.  Einn hefur greinst og er í einangrun á Norðurlandi vestra og tíu í sóttkví, en eins og kunnugt er greindist nokkur fjöldi smita á Hvammstanga í vor.

Ragnheiður Jóna Ingmimarsdóttir er sveitarstjóri í Húnaþingi vestra:

„Þetta lítur bara þokkalega út, ef við teljum, allavega eins og er, eitt einangrað smit og það hafa ekki greinst önnur sýni jákvæð en þetta eina. Það hefur verið að taka prufur hjá okkur og fara fleiri prufur í dag. Þannig að, eins og er, þá sýnist okkur þetta vera mjög afmarkað.“
 

Það er væntanlega léttir miðað við forsöguna?
„Já, já það er mjög gott ef við náum svona fljótt utan um þetta og getum bara stoppað þetta áður en þetta fer eitthvað af stað.“