Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Ögn rólegra en vanalega um verslunarmannahelgi

Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Svolítill erill var hjá lögreglunni á Akureyri einkum um miðbik nætur. Mest var um drykkjulæti og hávaða.

Að sögn lögreglumanns á vakt á Akureyri var nóttin svipuð, eða ögn rólegri en um venjulega verslunarhelgi. Strax upp úr miðnætti hófust kvartanir vegna hávaða af samkvæmum.

Að öðru leyti sneru útköll lögreglu að drukknu fólki sem kunni vart fótum sínum forráð. Ró og spekt var á tjaldsvæðum enda mestmegnis fjölskyldufólk þar.

Gestir í bænum voru teknir að tygja sig heim strax í gær enda veðrið ekki eins og best verður á kosið, þoka og súld.

Á Siglufirði er mikið fjölmenni og nokkuð ónæði þess vegna. Ryskingar urðu milli manna á bryggjunni og við Sigló-hótel sem lauk þó án nokkurra eftirmála.

Lögreglan á Akureyri vill í lok verslunarmannahelgar hvetja ferðalanga til að aka varlega á leiðinni heim til sín.

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV