Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Ísrael og Hamas-liðar takast á

03.08.2020 - 01:26
Mynd með færslu
 Mynd:
Ísraelskar orrustuþotur gerðu í dag árás á neðanjarðaraðsetur Hamas-liða á Gaza-svæðinu eftir að eldflaug var skotið þaðan að Ísrael.

Loftvarnarflautur voru þeyttar en eldflaugin var stöðvuð af eldflaugavarnarbúnaði Ísraelsmanna. Hún olli hvorki skemmdum á mannvirkjum né manntjóni.

Um var að ræða fyrstu eldflaugaárásina frá því í byrjun júlí að sögn talsmanns ísraelska hersins.

Ísrealsmenn og Hamas-samtökin hafa þrisvar átt í vopnuðum átökum frá árinu 2008. Þrátt fyrir vopnahlé undanfarinna mánaða hefur verið skipst á skotum, eldflaugum skotið frá Gaza og Ísraelsstjórn svarað með árásum á skotmörk þar.

Vígamenn felldir við landamæri Sýrlands

Ísraelskir hermenn og herþotur felldu jafnframt fjóra vígamenn sem voru að koma sprengiefni fyrir við öryggisgirðingu við landamærin að Sýrlandi.

Mjög hefur andað köldu milli Ísraels og Sýrlands undanfarið. Í júlí gerðu ísrealskar herþyrlur árás á hernaðarlega mikilvæg skotmörk í suðurhluta Sýrlands í hefndarskyni fyrir árás þaðan á Ísrael.

Ísraelskir fjölmiðlar fullyrtu að Hezbollah-hreyfingin hefði staðið að baki árásunum á Ísrael. Hreyfingin er dyggilega studd af Írönum og hefur mikil ítök í Sýrlandi. Í síðasta mánuði voru fimm stríðsmenn þeirra felldir í eldflaugaárás Ísraela sunnan höfuðborgarinnar Damaskus.