Hurtigruten aflýsir siglingum skemmtiferðaskipa

03.08.2020 - 10:13
Erlent · COVID-19 · Evrópa
epa08581516 A view of the Hurtigruten cruise ship MS Roald Amundsen moored in the Breivika harbour, in Tromso, northern Norway, 03 August 2020, over a coronavirus disease (COVID-19) outbreak on board the vessel.  EPA-EFE/TERJE PEDERSEN  NORWAY OUT
 Mynd: EPA-EFE - NTB SCANPIX
Norska skipafélagið Hurtigruten hefur aflýst siglingum allra skemmitferðaskipa sinna vegna kórónuveirusmita, en 36 skipverjar félagsins greindust fyrir helgi. Lögregla rannsakar nú málið þar sem bæði Hurtigruten og skipverjar um borð gætu þurft að svara til saka.

Skipverjarnir sem greindust eru flestir á Filippseyjum en þeir unnu um borð í skipinu Roald Amundsen. Forsvarsmenn Hurtigruten greindu frá því í morgun að hin skemmtiferðaskipin, Spitsbergen, Fram og Fridtjof Jansen yrðu í höfn næstu vikur. Enn er unnið að því að ná í farþega síðustu siglingar Roald Amundsen, en þegar hafa nokkrir farþegar greinst með veiruna. Mikil reiði er í Noregi og forsvarsmenn fyrirtækisins sakaðir um að leyna smitum til að geta haldið áfram starfsemi. Í tilkynningu Hurtigruten í morgun segir að mistök hafi verið gerð við skimun og verklagsreglur verði endurskoðaðar. 

Samkvæmt norsku lýðheilsustofnuninni fylgdi Hurtigruten ekki fyrirmælum hennar, sem fólust í því að hafa samband við alla farþega strax. Það tók tvo daga áður en þeim var tilkynnt að smit hefði greinst um borð. Í tilkynningu forsvarsmanna Hurtigruten segir að þeir hafi ekki vitað að tilkynna þyrfti farþegum þetta strax, og þeir hafi ráðfært sig við lækni um borð. 

Skipið var á koma úr vikulöngum leiðangri til Svalbarða og kom til Tromsö á föstudaginn, 31. júlí. Síðar þann sama dag greindust fjórir starfsmenn meið veiruna og voru allir lagðir inn á sjúkrahús í einangrun. 36 höfðu greinst daginn eftir, 33 frá Filippseyjum, einn Frakki, einn Þjóðverji og einn Norðmaður. Alls voru 386 farþegar um borð í síðustu tveimur siglingum skipsins. Þeir snéru flestir til síns heima og alls hefur 69 sveitarfélögum verið gert að fylgja þeim eftir en um fjörutíu farþegar eru í sóttkví í Tromsö. 

 

Bjarni Pétur Jónsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi