Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Fyrrverandi Spánarkonungur farinn í útlegð

03.08.2020 - 18:11
epa07806345 Spain's Emeritus King Juan Carlos leaves Hospital Quiron Salud in the town of Pozuelo de Alarcon, outside Madrid, Spain, 31 August 2019. Emeritus King has been discharged from hospital after undergoing a triple bypass surgery last 24 August.  EPA-EFE/David Fernandez
 Mynd: epa
Jóhann Karl, fyrrverandi Spánarkonungur, er farinn í sjálfskipaða útlegð. Konungshöllin tilkynnti þetta í dag. Aðeins eru nokkrar vikur síðan að nafn hans var bendlað við spillingarannsókn.

Þetta kemur fram á vef BBC.

Jóhann Karl sagði af sér konungstign fyrir sex árum en valdatíð hans var um nokkuð lituð af hneykslismálum.  Hann hlaut þó mikið lof fyrir að leiða þjóðina farsællega frá einræði til lýðræðis eftir dauða Francisco Franco.  Vinsældir hans döluðu mikið þegar upp komst að hann hefði farið í lúxus-ferð til Botsvana til að skjóta fíla árið 2012.

Á sama tíma var fjórðungur spænskra ungmenna atvinnulaus. Ferðin átti að vera leynileg en rataði í fjölmiðla þegar kóngurinn mjaðmarbrotnaði og var fluttir til Spánar með einkaflugvél. 

Þá slapp hann við faðernispróf eftir að belgísk kona sagði hann vera föður sinn. 

Í mars á þessu ári svipti sonur hans, Filippus Spánarkonungur, föður sinn öllum ellilífeyri og afsalaði sér öllum arfi sem honum var ætlað eftir daga föður síns. Í ljós kom að konungurinn fyrrverandi hafði þegið 90 milljónir evra frá Sádi Arabíu í gegnum aflandsreikninga. 

Í júní tilkynnti svo Hæstiréttur Spánar að hann hefði hafið formlega rannsókna á því hvort greiðslurnar hefðu verið ólöglegar. Rannsóknin er einskorðuð við tímann eftir að konungurinn sagði af sér en eftir það naut hann ekki lengur friðhelgi.  

Jóhann Karl er talinn hafa haft hönd í bagga með að spænskt fyrirtæki var valið til að leggja járnbraut frá Mekka til Medínu í Sádí-Arabíu. Samningurinn hljóðaði upp á eitt þúsund milljarða. 

Ekki kemur fram í tilkynningunni hvert Jóhann Karl ætlar að flytja en þó er tekið skýrt fram að ef saksóknara þurfi að ná tali af honum verði það hægt.