Enn eitt Íslandsmetið hjá Hlyni

Mynd með færslu
 Mynd: Eva Björk Ægisdóttir

Enn eitt Íslandsmetið hjá Hlyni

03.08.2020 - 09:54
Hlynur Andrésson setti í gær enn eitt Íslandsmetið í hlaupum. Hann bætti þá eigið Íslandsmet í 3000 m hlaupi á móti í Hollandi. Hlynur hljóp á 8:02,60 mín. Hann varð annar í hlaupinu, 90 hundraðshlutum úr sekúndu á eftir Stan Niesten sem sigraði.

Í síðasta mánuði bætti Hlynur 37 ára gamalt Íslandsmet Jóns Diðrikssonar í 3000 m hlaupi þegar hann hljóp á 8:04,54 mín í Utrecht. Það met var semsagt sett tíu árum áður en Hlynur fæddist. En nú hefur Hlynur bætt metið aftur.

Hlynur á jafnframt Íslandsmetin utanhúss í 5000 m hlaupi, 10.000 m hlaupi, 10 km götuhlaupi og í 3000 m hindrunarhlaupi. Þá á hann einnig Íslandsmet innanhúss í 1500 m hlaupi, 3000 m hlaupi og í 5000 m hlaupi.

Í tilkynningu frá Frjálsíþróttasambandi Íslands segir að Hlynur muni næst keppa í 5000 m hlaupi eftir tvær vikur og miðað við gott form gæti hann vel bætt Íslandsmetið sitt í þeirri grein þá. Þá sé Hlynur skráður í Reykjavíkurmaraþonið 22. ágúst. Síðustu ár hefur hann hlaupið hálft maraþon í því og ávallt komið fyrstur í mark.