Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Auknar takmarkanir á Vestfjörðum

Mynd með færslu
 Mynd: NN - Tálknafjarðarhreppur
Á Vestfjörðum líkt og víðar á landinu hefur verið gripið til hertra aðgerða vegna fjölgunar kórónuveirusmita undanfarið. Heimsóknarbann hefur nú verið sett á dvalar- og hjúkrunarheimilið Barmahlíð í Reykhólahreppi.

Frá þessu er greint á vef Bæjarins besta. Líkamsrækt í kjallara sundlaugarinnar þar er lokuð. Aðeins mega vera hundrað gestir í sundlauginni samtímis og fjórir í pottinum.

Í Tálknafirði er jafnframt búið að loka líkamsræktinni, gufubaðinu og köldum potti í sundlaug bæjarins. Aðeins mega tuttugu vera á sama tíma á sundlaugarsvæðinu og hver má eingöngu verja einni klukkustund í lauginni.

Líkamsræktarstöðvum á Patreksfirði og Bíldudal hefur verið lokað ásamt sánaklefum og köldum pottum við sundlaugar. Takmarkað er hve margir mega vera sundi á sama tíma og hið sama á við tjaldsvæði.

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV