Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Tólf ára stúlka skotin til bana í Stokkhólmi

02.08.2020 - 17:00
Mynd með færslu
 Mynd: C. Olsson - SVT
Lögreglunni barst tilkynning klukkan hálf fjögur í nótt að staðartíma um skothávaða á bensínstöðinni E4 í Norsborg í Botkyrka í Suður-Stokkhólmi. Tólf ára stúlka fannst með skotsár á vettvangi. Hún var flutt á sjúkrahús en lést af sárum sínum þar.

Búið er að yfirheyra fólk en enginn er í varðhaldi samkvæmt Evu Nilsson talsmanni lögreglunnar í Stokkhólmi í samtali við Dagens Nyheter.  Lögreglan veitir engar frekari upplýsingar um gang rannsóknarinnar. Málið er rannsakað sem morð.

Morgan Johansson, dómsmálaráðherra Svía segir í samtali við Dagens Nyeter að sænsk stjórnvöld hafi aukið viðspyrnu við glæpum síðustu fimm árin og að stjórnvöld haldi áfram á þeirri braut. Hann segir metnaðarfyllstu umbótaáætlun gegn þessari tegund glæpa sem nokkur ríkisstjórn hafi þróað nú í framkvæmd, svokallaða 34 stiga áætlun. Harðari viðurlög, kröftugri lögregla og forvarnarstarf eigi að lækka tíðni glæpa í borginni. 

 

Valgerður Árnadóttir
Fréttastofa RÚV