Smáforrit leiddi unglinga að líkamsleifum í ferðatösku

Mynd: Porapak Apichodilok / Pexels

Smáforrit leiddi unglinga að líkamsleifum í ferðatösku

02.08.2020 - 10:05

Höfundar

Smáforritið Randonautica leiddi unglinga að líkamsleifum í ferðatösku undir brú í Seattle í Bandaríkjunum. Forritið spýtir út hnitum sem notendur eiga að elta og lofar ævintýrum á áfangastað.

Smáforritið Randonautica styðst við þá kenningu að hugsanir fólks geti haft áhrif á tæknina. Appið reiknar út hnit fyrir notendur sína af handahófi og biður notendur um að óska sér eða setja sér markmið á meðan. Hnitin eiga þannig að litast af óskum notandans og hann á að geta fundið eitthvað sem tengist markmiðinu með einhverjum hætti á áfangastað.

Óskir notenda eru gjarnan jákvæðar. Þær geta falið í sér til dæmis ást, frið eða náttúrufegurð. Þá eru dæmi um að notendur sækist eftir óhugnanlegri ævintýrum og leiti eftir einhverju hryllilegu, yfirnáttúrulegu eða dularfullu á áfangastað.

Virkni forritsins sveipað dulúð

Markmiðið með appinu er að hvetja fólk til þess að víkja frá daglegri rútínu og fara í handahófskennt ferðalag út í heiminn, segir á vef appsins.

Forsvarsmenn forritsins nota alls kyns hugtök, svo sem úr skammta- og varmafræði, til þess að útskýra virkni appsins sem sveipar það ákveðinni dulúð og gerir það bæði óskiljanlegt og óhrekjanlegt fyrir meðalnotandann.

Hafa skal það sem meira spennandi reynist

Þessi kenning, að hugsanir geti haft áhrif á tæknina, virðist ekki njóta mikilla vinsælda í vísindasamfélaginu almennt. En „hafa skal það sem meira spennandi reynist“ er þrástef unglingsáranna. Sönnun þess má meðal annars sjá á samfélagsmiðlum á borð við Reddit og TikTok. Þar greinir fjöldi notenda frá mis-farsælum ferðalögum sínum á vegum appsins. Þess ber þá að geta að forritinu hefur verið halað niður oftar en ellefu milljón sinnum.

Segja má að forritið hafi öðlast einhvers konar költ-stöðu. Á mörgum myndböndum og frásögnum frá notendum Randonautica má sjá mikið gert úr atvikum og aðstæðum, sem sumir myndu kalla tilviljanir, og dularfullum atburðum sem tengjast forritinu.

Sumir leggja mikla merkingu í það sem verður á vegi þeirra við notkun appsins og vilja jafnvel meina að forritið geti haft áhrif á örlög fólks. Enn aðrir segja að með notkun appsins sé hægt að láta reyna á það hvort við búum í sýndarveruleika. Svo er einn og einn sem finnur hreinlega eitthvað furðulegt, eins og konan sem fann stappfullan poka með ljósmyndum af mygluðu brauði.

Lögregla rannsakar nú málið

Forritið komst í fréttirnar nú á dögunum þegar unglingar í Seattle fundu ferðatösku undir brú með notkun appsins. Grunsemdir vöknuðu hjá unglingunum við nánari skoðun á töskunni og gerðu þau því lögreglu viðvart. Grunur unglinganna fékkst staðfestur litlu síðar þegar lögreglan í Seattle staðfesti að líkamsleifar hefðu fundist í töskunni. Verið er að rannsaka málið.

Unglingarnir mynduðu ferðalagið með Randonautica og birtu á samfélagsmiðlinum TikTok. Búið er að horfa á myndbandið rúmlega fjórum milljón sinnum.

Forsvarsmenn smáforritsins segja líkfundinn vera algjöra tilviljun. Þessir tilteknu unglingar hafi bara verið óheppnir.

Fanney Benjamínsdóttir, einn umsjónarmanna Tengivagnsins á Rás 1, ákvað að láta reyna á virkni smáforritsins og fór með hlustendur í ferðalag. Hægt er að hlusta á innslagið í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan og komast að því hvort Fanney fái raunveruleikann staðfestan eða jafnvel hrakinn með notkun appsins.

 

Tengdar fréttir

Tækni og vísindi

„Ekki treysta eingöngu á nettengdar tæknilausnir“

Erlent

Bangsar og smáforrit tryggja öryggi í Tívolí

Tækni og vísindi

Tíu undarleg smáforrit fyrir helgina

Samgöngumál

Segja smáforrit ógna öryggi sínu