Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Kári segir stöðuna alvarlegri en í vor

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar.
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
„Þegar faraldurinn barst til Íslands í byrjun mars var veiran að lauma sér hingað frá mörgum löndum. Þá gátum við gripið fólk og sett það í sóttkví. Nú eru að greinast hér samfélagssmit. Það er miklu verra, því þá er þetta bara að breiðast út í okkar samfélagi,“ segir Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, í samtali við fréttastofu. Hann segir að á morgun muni hann fara yfir stöðuna á fundi með Þórólfi Guðnasyni sóttvarnalækni og Ölmu Möller landlækni.  

„Það góða er að skimunin á landamærum virðist virka. En það eru miklu verri fréttir að það skuli vera á ferð um samfélagið veira sem er að breiðast út og að við vitum ekki hverjir tengja þessa aðila sem hafa sýkst,“ segir Kári.  

Þrettán ný smit greindust innanlands í gær og aðeins einn þeirra sem greindust var í sóttkví. Kári bendir á að mjög snemma eftir að veiran barst fyrst til landsins hafi meirihluti þeirra sem greindust verið í sóttkví. Nú sé veiran í felum í samfélaginu. „Þetta lítur mun verr út,“ segir hann.  

Handviss um að yfirvöld beiti sér af öllum krafti 

„Við erum eiginlega í svolítilli krísu. En ég held að með þeim ráðstöfunum sem eru í gangi núna sé möguleiki á að hemja þetta. Og ef það gengur ekki, þá er möguleiki á að herða þetta enn meira. Eins og stendur vitum við að veiran er víða í samfélaginu. Hún er þó ekki úti um allt,“ heldur Kári áfram.  

Aðspurður hvort hann hafi áhyggjur af því að stjórnvöld beiti ekki nógu hörðum sóttvarnaraðgerðum segist Kári handviss um að yfirvöld beiti sér af öllum þeim krafti sem þau geta. 

 „Það sem ég sagði þegar við byrjuðum var að ég vildi hafa reglurnar stífari,“ segir Kári en bætir við: „En það má ekki gleyma því að Þórólfur er mikill fagmaður. Það fæst ekki betri maður við stýrið. Ég treysti honum 100 prósent.“ 

„Ef þessar aðgerðir duga ekki er ég viss um að reglurnar verði hertar mjög fljótlega. Við ætlum okkur að ná utan um þetta,“ segir hann.  

Fer yfir stöðuna með Þórólfi og Ölmu á morgun 

Kári segist munu setjast niður með Þórólfi og Ölmu á morgun til að fara yfir stöðuna. „Við ætlum að fara yfir öll gögn sem við höfum og í kjölfarið tekur Þórólfur ákvörðun um framhaldið. Þannig sjáum við til þess að Þórólfur hafi allt sem hann þarf til að meta stöðuna,“ segir hann. 

Mikil aðsókn í sýnatöku á Akranesi 

Aðspurður hvernig skimun Íslenskrar erfðagreiningar gangi segir Kári sýnatökuna ganga vel. Í dag hafi Íslensk erfðagreining stefnt að því að skima 500 manns á Akranesi. „Við komumst ekki hjá því að skima yfir 600 því menn voru svo ákafir í að taka þátt.“  Fréttastofa greindi frá því í kvöld að öll sýnin hefðu reynst neikvæð.

„Þessi þjóð okkar virðist rísa upp þegar þörf er á,“ segir Kári og minnir að lokum á að það sé full ástæða fyrir fólk að gæta fyllstu varúðar og leggja sig fram um að fylgja sóttvarnarreglum.