Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Íbúar Flórída búa sig undir fellibyl

02.08.2020 - 07:45
Mynd með færslu
 Mynd: Samsett mynd - RÚV
Íbúar á Flórída búa sig nú undir að hitabeltisstormurinn Isaias skelli á ríkinu. Veðurfræðingar óttast að hann nái aftur styrk fellibyls áður en hann nær landi.

Við það verður hætta á miklum skemmdum og flóðum víða um ríkið. Því er hvatt til þess að öllum undirbúningi fyrir komu Isaiasar verði hraðað sem verða má.

Vindhraðinn er kominn upp í 30 metra á sekúndu og stormurinn nálgast Miami á ægihraða. Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur lýst yfir hættuástandi í ríkinu.

Ron DeSantis ríkisstjóri sagði að á Palm Beach hefði verið gefið út að fólki væri í sjálfsvald sett hvort það yfirgæfi heimili sín. Betra væri að halda sig heima en vera á ferli þegar stormurinn skellur á.

Almenningur hefur birgt sig upp af nauðsynjum til að vera viðbúinn fari allt á versta veg. Fólk í ríkinu hefur enda slæma reynslu af atferli fellibylja á svæðinu. Fyrir tveimur árum leit út sem styrkur fellibylsins Michael væri orðinn nánast að engu þegar hann svo skall af fullum þunga á Flórída.

Isaias hefur skilið eftir sig slóð eyðileggingar á Bahama-eyjum, Dómíníkanska lýðveldinu og á Púertó Ríkó.

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV