Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Endurskoða verkferla vegna frávísana

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Sigríður Dóra Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri lækninga hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins segir að endurskoða þurfi fyrirmæli til þeirra sem svara símum eftir að í ljós koma að sýktu fólki var neitað um sýnatöku. Kanna þurfi hvað fór úrskeiðis. 

Ekki ásættanlegt að fólk komist ekki í sýnatöku

Alma Möller landlæknir sagði, í gær á upplýsingafundi Almannavarna að varnir gegn veirunni snerust meðal annars um að greina veiruna snemma.

„Og þegar kemur að snemmgreiningu þá er ekki ásættanlegt að heyra sögur af því að fólk sem er með einkenni komist ekki í sýnatöku. Og ég vil brýna fyrir heilbrigðisstarfsfólki að hafa lágan þröskuld á því að taka sýni“  

Sigríður Dóra segir mjög leiðinlegt að heyra af þessu. 
 
„Okkar tilmæli voru mjög skýr sem við höfum sent áfram tilmæli sóttvarnarlæknis allir sem eru með minnstu einkenni eigi að komast í sýnatöku.“ 

Vilja skoða hvað fór úrskeiðis

„Svo bara viljum við heyra um þessi erindi svo við getum skoðað hvað fór úrskeiðis því það eru mjög margir að svara símanum mjög margir að taka þessi erindi.“
 
„Og það eru mjög skýr fyrirmæli sem hafa verið send út alltaf reglulega en að sjálfsögðu gefa svona ábendingar tilefni til að við endurskoðum það.“

Hafa á samband við minnstu einkenni

Komið hefur í ljós að fólk getur verið smitað af Covid-19 en með mjög lítil einkenni. Sigríður Dóra segir að tilmæli til þeirra sem leggja mat á einkennin hafi verið að skoða alltaf alla heildina en ekki festast í ákveðnum hita eða ákveðnum einkennum.  Farið verður yfir alla verkferla

„Að sjálfsögðu gerum við það og skerpum á því við okkar fólk. Þannig að við getum ekki verið að festa okkur of mikið í miklum klínískum einkennum því fyrirmælin hafa verið að bara við minnstu einkenni að hafa samband og fara í sýnatöku. Og á meðan þarf fólk að vera í sóttkví þangað til það er komið með niðurstöðu.“