Dauflegir nífaldir meistarar

epa08579972 Goalkeeper Gigi Buffon (L) and Cristiano Ronaldo jubilate with the cup during the celebrations for the Juventus' victory of the 9th consecutive Italian championship (scudetto) at Allianz Stadium in Turin, Italy, 01 August 2020.  EPA-EFE/ALESSANDRO DI MARCO
 Mynd: EPA-EFE - ANSA

Dauflegir nífaldir meistarar

02.08.2020 - 13:00
Leikmenn Juventus lyftu í gær ítalska meistaratitlinum í fótbolta níunda árið í röð. Yfirburðir liðsins hafa verið algjörir síðustu ár en titillinn í ár var þó ósannfærandi.

Maurizio Sarri settist í stjórastól Juventus eftir að Massimiliano Allegri var sagt upp störfum síðasta sumar. Allegri hafði verið stjóri í fimm ár, frá 2014, og unnið á þeim tíma fimm ítalska meistaratitla og fjóra bikartitla.

Sarri hafði fyrir gærdaginn lyft tveimur titlum sem knattspyrnustjóri; sem sigurvegari í bikarkeppni D-deildarliða á Ítalíu með Sansovino árið 2003 og Evrópudeildarbikar með Chelsea síðasta vor. Sarri hefur þó heillað fyrir starf sitt með Napoli, sem veitti Juventus harða keppni um titilinn á lokaári hans sem þjálfari liðsins tímabilið 2017-18.

Aldrei eins mjór munur

Margir efuðust um getu Sarri til að taka næsta skref með Juventus-liðið, sem er það langbesta á Ítalíu, en honum tókst þó það ætlunarverk sitt að klára deildartitilinn. Frá því að liðið hóf sigurgöngu sína með fyrsta titlinum af níu árið 2012 hefur það þó aldrei fengið eins fá stig og í ár, 83 stig.

Liðið tryggði ítalska titilinn með 2-0 sigri á Sampdoria í 36. umferð deildarinnar en lauk keppni á tveimur töpum í kjölfarið. Juventus lauk mótinu á toppi deildarinnar með 83 stig, aðeins einu á undan Inter frá Mílanó. Á síðustu níu árum hefur stigamunurinn aldrei verið eins naumur.

Áhersla á Meistaradeild?

Þá tapaði Juventus fyrir Napoli í úrslitum ítalska bikarsins fyrr í sumar. Liðinu mistekst þar með að vinna bikarinn annað árið í röð, eftir að hafa unnið hann fjögur ár í röð þar á undan.

Sarri á þó enn möguleika á að klára það sem forvera hans Allegri tókst ekki og var hvað mest gagnrýndur fyrir; að vinna Meistaradeild Evrópu. Juventus er þó 1-0 undir í einvígi sínu við Lyon frá Frakklandi í 16-liða úrslitum keppninnar. Juventus mætir Lyon í síðari leik liðanna 7. ágúst næst komandi þegar Meistaradeildin klárast með hraðmóti í Lissabon í Portúgal. Þrjú töp í síðustu fjórum deildarleikjum liðsins gefur þó ekki bestu fyrirheitin fyrir framhaldið.

Bætist sá tíundi við?

Þá verður áhugavert að sjá hvort Sarri geti stýrt Juventus til tíunda deildarsigursins í röð á næstu leiktíð. Vegna yfirburða sinna síðustu ár hefur Juventus töluverða fjárhagslega yfirburði á samkeppnisaðila sína og hafa fjárhagslegur fylgifiskur kórónuveirufaraldursins líkast til minni áhrif á ríkt lið Juventus.

Ekki skal útiloka Antonio Conte, sem hóf sigurgöngu Juventus sem stjóri liðsins tímabilið 2011-12. Sá stýrði Inter í vetur til eins stigs minna en meistararnir í deildinni. Atalanta og Lazio áttu frábærar leiktíðir og voru aðeins þremur stigum frá Inter í þriðja og fjórða sæti. Napoli, sem hefur oftast lent í öðru sæti deildarinnar síðustu ár, átti þá góðan sprett í sumar eftir COVID-hlé. 

Meistaratímabil Juventus 2011-2020

Tímabil Stig í deild 2. sæti deild Bikar Meistaradeild Þjálfari
2011-12 84 AC Milan (80 stig) 2. sæti - Antonio Conte
2012-13 87 Napoli (78 stig) Undanúrslit 8-liða úrslit Antonio Conte
2013-14 102 Roma (85 stig) 8-liða úrslit Undanúrslit Antonio Conte
2014-15 87 Roma (70 stig) Meistarar 2. sæti Max Allegri
2015-16 91 Napoli (82 stig) Meistarar 16-liða úrslit Max Allegri
2016-17 91 Roma (87 stig) Meistarar 2. sæti Max Allegri
2017-18 95 Napoli (91 stig) Meistarar 8-liða úrslit Max Allegri
2018-19 90 Napoli (79 stig) 8-liða úrslit 8-liða úrslit Max Allegri
2019-20 83 Inter (82 stig) 2. sæti 16-liða úrslit* Maurizio Sarri