Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Átta í einangrun í Færeyjum

02.08.2020 - 23:20
Mynd með færslu
 Mynd: COPYRIGHT© 2015 VISIT FAROE ISL
Nú eru þrjátíu og þrjú virk kórónuveirusmit í Færeyjum að sögn þarlendra heilbrigðisyfirvalda.

Á föstudaginn var annar þeirra rússnesku sjómanna sem legið hafa á sjúkrahúsi með Covid-19 útskrifaður og í gær var tilkynnt um að þrjú til viðbótar hefðu náð sér. Færeyskir fjölmiðlar telja líklegast að það sé fjölskyldan sem kom með flugi til eyjanna 18. júlí síðastliðinn.

Flest þeirra 33 sem enn teljast með virk smit hafa þegar yfirgefið Færeyjar. Um er að ræða skipverja á rússneska togaranum Karelia og litháenska flutningaskipinu Cassiopea.

Lars Fodgaard Møller landlæknir Færeyja segir tilfelli þeirra verða skráð áfram sem innanlandssmit þar til tveimur vikum eftir að þau greindust. Alls hafa rúmlega 39 þúsund sýni verið tekin í Færeyjum, 225 hafa greinst með veiruna, 192 hafa náð sér og enn eru átta í einangrun.