Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Apple og Google leyfðu ekki bluetooth-virkni í appið

02.08.2020 - 17:44
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Stórfyrirtækin Google og Apple tóku fyrir það að bluetooth-virkni væri sett í íslenska rakningarappið og eru sjálf að þróa nýja tækni fyrir alla síma. Þetta sagði Alma Möller, landlæknir á upplýsingafundi Almannavarna í dag.

Íslenska rakningarappið styðst við GPS-punkta til að hjálpa fólki, sem greinist með veiruna, við að rifja upp ferðir sínar. Alma segir að bæta hafi átt við appið bluetooth-virkni sem geri kleift að sjá hvaða símar hafa verið nálægt hver öðrum.
 
„En það leyfðu ekki Apple og Google við áttum fundi með þeim. Og þar upplýstu þessi stóru fyrirtæki okkur að þau eru að þróa í sameiningu svona virkni sem verður í öllum símum og þar sem ítrustu persónuverndar er gætt“

Bluetooth-virknin hefði komið sér vel en von er á þessari nýjung frá fyrirtækjunum í þessum mánuði. Alma leggur áherslu á að fólk noti íslenska rakningarappið.   
 
„Það hefur sýnt sig að það hefur reynst hjálplegt við að rifja upp ferðir af því fólk er búið að fara víða í sumar.“