
Alvarlegt ástand í Suður Afríku
BBC hefur eftir heilbrigðisráðherra landsins að yfir átta þúsund hafi fallið í valinn af völdum veirunnar. Helmingur allra smita í Afríku er skráður í Suður Afríku sem nú er í fimmta sæti yfir þau ríki heimsins sem harðast hafa orðið fyrir barðinu á veirunni.
Strangt útgöngubann var sett í Suður Afríku í apríl og maí en eftir að slakað var á því í júní tók fjöldi smita að vaxa á nýjan leik. Neyðarástandi hefur verið lýst yfir í landinu sem mun vara hið minnsta til 15. ágúst næstkomandi.
Heilbrigðiskerfið stendur frammi fyrir gríðarlegum vanda og þótt sjúkrarýmum hafi verið fjölgað um 28 þúsund í júlí dugir það hvergi til. Sömuleiðis er alvarlegur hörgull á læknum og hjúkrunarfólki í landinu.
Alþjóðaheilbrigðisstofnunin varaði við því í síðustu viku að atburðarásin í Suður Afríku væri forsmekkurinn að því sem álfan öll gæti þurft að horfast í augu við á næstu vikum og mánuðum.