
Róstur í rússneskri borg
Kveikja mótmælanna er handtaka héraðstjórans Sergei Furgal þann 9. júlí síðastliðinn. Hann er fimmtugur, fyrrverandi kaupsýslumaður, sem sakaður er um að hafa fyrirskipað morð fyrir fimmtán árum.
Hann er nú í varðhaldi í Moskvu í 6.000 kílómetra fjarlægð frá Khabarovsk. Furgal, sem tilheyrir þjóðernisflokknum LDPR, er vinsæll meðal íbúa svæðisins sem flykktust út á götur til að mótmæla handtöku hans.
Nú hafa mótmælin tekið á sig mynd baráttu fyrir lýðfrelsi en stuðningsmenn Furgals líta svo á að handtakan hafi verið til að fjarlægja hann af pólítíska sviðinu.
Hann hefur verið mjög sjálfstæður í ákvarðanatökum en ein af ástæðum mótmælanna er sögð gremja íbúanna gagnvart stjórnvöldum í Moskvu sem þeim finnst hunsa þarfir sínar.
Jafnframt skapraunar það þeim að Mikhail Degtyarev staðgengill Furgals var skipaður af stjórnvöldum. Hann hefur fengið kaldar móttökur enda þykir fólki að það hefði átt að fá að kjósa arftaka Furgals.
Mótmælendur á götum úti hafa hrópað slagorð gegn Pútín Rússlandsforseta en athygli vakti að öllu lægra hlutfall íbúa Khabarovsk samþykktu stjórnarskrárbreytingar hans en á landsvísu.