Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Óboðnir gestir og rof á einangrun

Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu þurfti í gærkvöldi að hafa afskipti af manni sem sagður var í annarlegu ástandi á heimili sínu, vopnaður hnífum.

Þegar til kom reyndist maðurinn eiga við andleg veikindi að stríða og fékk hjálp við að leita sér viðeigandi aðstoðar.

Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. 

Tvisvar komu óboðnir gestir sér fyrir í híbýlum annarra, annars vegar í íbúð í miðborginni og hins vegar í bát við Reykjavíkurhöfn. Lögreglan hafði afskipti af fólkinu sem verður kært fyrir húsbrot.

Einstaklingur sem átti að vera í einangrun vegna Covid-19 fékk sér of mikið neðan í því í gær og átti því erfitt með að virða tilskilin mörk. Hann var færður í fangageymslur eftir að aðrir íbúar hússins sáu sér ekki annan kost vænstan en kalla til lögreglu. Sá smitaði fékk því að gista fangageymslu uns mesta víman rennur af honum.

Maður slasaðist í Hafnarfirði við að detta af hjóli. Einn var handtekinn í miðborginni eftir hafa brotið rúðu og annar fyrir líkamsárás í efri byggðum borgarinnar. 

Fjölmargar umkvartanir bárust lögreglu vegna háværra gleðiláta meðal samkvæmisgesta í gærkvöldi og nótt auk þess sem flugeldum var skotið upp á nokkrum stöðum í borginni.

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV