Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Grobbinn sakborningur kom lögreglu á sporið

epa08479492 Two law enforcement officers stand guard near a piece of art attributed to Banksy, that was stolen at the Bataclan in Paris in 2019, and found in Italy, ahead of a press conference in L'Aquila, Italy, 11 June 2020. British street artist Banksy's tribute to the 2015 Bataclan massacre survivors, stolen from outside the Paris theatre in January last year, was presented at the press conference after being found in the attic of a farmhouse near Teramo in Abruzzo.  EPA-EFE/CLAUDIO LATTANZIO
 Mynd: EPA

Grobbinn sakborningur kom lögreglu á sporið

01.08.2020 - 16:30

Höfundar

Stolnar klippur, upptökur úr öryggismyndavélum og grobbinn sakborningur voru lykillinn að því yfirvöldum tókst að finna verk eftir listamanninn Banksy sem stolið var úr Bataclan-klúbbnum í París fyrir einu og hálfu ári síðan.

Í umfjöllun AFP-fréttastofunnar er ráninu lýst. Þrír menn í hettupeysum sem huldu andlit sitt með grímum, fóru með klippur að stálhurð Bataclan-klúbbsins; staðarins þar sem íslamskir hryðjuverkamenn myrtu 90 fyrir fimm árum.

Á hurðina hafði Banksy gert verkið „sorgmædda stúlkan“ til minningar um þá sem létust í árásinni. Þjófarnir voru snöggir. Eftir aðeins nokkrar mínútur höfðu þeir komið hurðinni fyrir í Citroen-sendiferðabíl. Þeir hurfu síðan inn í nóttina og höfðu gætt þess vandlega að ekki var hægt að sjá númerin á bílnum.

Lögreglan brást skjótt við, aflaði sér upplýsinga um símnotkun á svæðinu og bar hana saman við upptökur úr eftirlitsmyndavélum sem sýndu ferð Citroen-sendiferðabílsins. Þannig tókst að einangra síma mannanna.  

Ári síðar voru þrír menn handteknir, grunaðir um innbrot í tískuvörubúð. Lögreglan lagði meðal annars hald á stolnar klippur, svipaðar þeim og höfðu verið notaðar í listaverkaráninu og það sem meira var; einn þremenninganna gortaði sig af því að hafa átt þátt í að stela verki Banksy. 

Lögreglan nýtti sér þessar upplýsingar til að reyna að hafa upp á þeim sem voru með verkið. Rannsóknin leiddi í ljós að verkið hafði verið flutt til Isere í suðausturhluta Frakklands og þaðan til Suður-Frakklands áður en það rataði til Ítalíu.

Þar komst lögreglan á snoðir um að sá sem væri með verkið væri hinn 39 ára gamli Mehdi Mefta, stofnandi tískuvörumerkis. AFP segir Mefta minna á útkastara í útliti, allur þakinn húðflúrum. 

Í fyrstu var talið að verkið hefði verið geymt á hóteli í eigu vinar Mefta. Sá sagðist við yfirheyrslur aldrei hafa vitað hvað væri geymt í stórum og þungum pakka á hótelinu. Þegar farið var í framkvæmdir á hótelinu var verkið flutt aftur og það geymt upp á háalofti á yfirgefnum bóndabæ í  Abruzzo-héraði.

Við yfirheyrslur kom fram að Mefta hefði ætlað að nota hurðina á eina af eignum sínum. Verjandi hans vísaði því á bug að Mefta hefði skipulagt þjófnaðinn og sagði skjólstæðing sinn aldrei hafa ætlað að selja verkið. Það hefði verið jafn erfitt og að koma Monu Lisu í verð.

Verkið sjálft er nú komið aftur til Frakklands þar sem það er í vörslu lögreglunnar í París.