Greindust smituð eftir að hafa verið neitað um sýnatöku

01.08.2020 - 14:21
Mynd með færslu
 Mynd: Ragnheiður Finnbogadóttir
„Ég ætlaði í langt ferðalag um landið með félaga mínum. Ef ég hefði fylgt leiðbeiningum hjúkrunarfræðings væri ég sennilega núna á Borgarfirði eystra,“ segir Gilad Peleg í samtali við fréttastofu. 

Gilad greindist með COVID-19 fyrir tíu dögum, eftir að hann og sambýliskona hans, Ragnheiður Finnbogadóttir, höfðu ítrekað óskað eftir sýnatöku vegna hósta og hita. Þeim var sagt að sennilega hefði þau krækt sér í flensu, einkennin bentu ekki til þess að þau hefðu COVID-19. Mbl.is ræddi við Ragnheiði fyrr í dag.

Ef við hefðum fengið sýnatöku strax hefðu miklu færri orðið útsettir 

Ragnheiður segir einna verst að hafa orðið þess valdur að fjórtán þurftu að fara í sóttkví. „Ef við hefðum farið strax í einangrun þegar Gilad fékk einkenni, þá hefðu svo miklu færri verið útsettir fyrir veirunni,“ segir hún. Vegna þess hve rólegt heilbrigðisstarfsfólk var yfir einkennum Gilads fór Ragnheiður í vinnu áður en hún fór sjálf að fá einkenni. Hann var hins vegar í sjálfskipaðri sóttkví því hann vildi ekki vera meðal fólks með einkenni án þess að hafa fengið staðfest að vera ekki smitaður af kórónuveirunni.  

„Ég fékk samviskubit yfir því að hafa sent fólk í sóttkví,“ segir hún. Nú sé þó liðinn langur tími og enginn þessara fjórtán enn þá sýnt einkenni.  

Tók til sinna ráða og fékk vin sinn til að koma í heimavitjun 

Gilad segir að þau hafi hringt og beðið um sýnatöku á þriðjudegi og hjúkrunarfræðingur hafi ráðlagt honum að hringja aftur á föstudegi ef einkennin versnuðu. Ef honum liði betur á fimmtudeginum væri ekkert athugavert við það að hann færi í ferðalag um landið eins og hann hafði ráðgert. 

Á miðvikudegi fékk Ragnheiður vin sinn sem er læknir til að koma til þeirra með sýnatökupinna í heimavitjun. Gilad fékk svo jákvæða niðurstöðu úr sýnatökunni daginn eftir. Ragnheiður greindist neikvæð í þeirri sýnatöku en jákvæð tveimur dögum seinna, eftir að hún byrjaði að fá einkenni. „Það er eins gott að við tókum til okkar ráða,“ segir hann. 

Telja víst að Gilad hafi smitast af ferðamanni 

Gilad er leiðsögumaður og var í samskiptum við ferðamann sem einnig var orðinn veikur þegar þau óskuðu eftir sýnatöku. Ferðamaðurinn hafði greinst neikvæður á landamærunum en greindist svo smitaður í kjölfar þess að rakningarteymið hafði samband við hann vegna veikinda Ragnheiðar og Gilads. „Það er greinilega svolítið falskt öryggi í landamæraskimuninni,“ segir Ragnheiður. Ferðamaðurinn sé í einangrun í Airbnb-íbúð og þau séu í sambandi við hann og gefi honum ráð um það hvernig hann getur orðið sér úti um nauðsynjar.  

 

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi