
Fóru í hlífðargöllum að handtaka foreldri með COVID-19
Útkallið krafiðst mikils viðbúnaðar og lögreglumenn voru klæddir hlífðarbúningum, með hanska og grímur, að sögn Skúla Jónssonar, aðstoðaryfirlögregluþjóns hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.
Samkvæmt upplýsingum frá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu voru hjónin undir áhrifum áfengis þegar lögreglu bar að garði. Annað þeirra átti að vera í einangrun á heimilinu og fjölskyldan í sóttkví.
Fluttur í fangaklefa og Barnavernd kölluð til
Sá smitaði var fluttur í fangaklefa við Hverfisgötu þar sem hann gisti í nótt og fulltrúar frá Barnavernd fóru á heimilið. Hann var svo fluttur aftur með sjúkraflutningabíl á heimili sitt í morgun eftir að lögregla hafði brýnt fyrir honum reglur um einangrun í heimahúsi.
Að sögn Skúla kallaði fangavistunin á mikinn viðbúnað, sótthreinsa þurfti fangaklefann og fangamóttökuna. Vaninn er að fólk sem ekki á kost á því að vera í einangrun í heimahúsi dvelji í Sóttvarnarhúsinu, en sá smitaði neitaði að vera fluttur þangað.
Skúli segir að mál af þessu tagi séu mjög fátíð. Einstaka mál hafi komið upp sem snúa að erfiðleikum við að framfylgja reglum um einangrun, en þau séu sárafá. „Það getur reynst fólki mjög erfitt að vera í einangrun í heimahúsi, þetta getur verið harmleikur fyrir fólk“ segir hann.
Hér má nálgast leiðbeiningar um einangrun í heimahúsi.