Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Forseti Íslands tekur embætti í dag

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Athöfn vegna embættistöku forseta Íslands fer fram í Alþingishúsinu í dag. Hún hefst klukkan 15.30 og verður í beinni útsendingu í sjónvarpi og útvarpi og hér á rúv.is. Útsending hefst klukkan 15:20.

Í sóttvarnarskyni verður útsendingunni ekki varpað út á Austurvöll eins og vaninn er. Þá hefur helgistund í Dómkirkjunni verið aflýst og útgöngu forsetans á svalir Alþingishússins sömuleiðis. Biskupinn flytur blessunarorð við athöfnina í þingsal. 

Gestir við embættistökuna verða mun færri en venjulega og að sögn Bryndísar Hlöðversdóttur, ráðuneytisstjóra forsætisráðuneytisins, verða gestir í kringum 25 í stað 300. 

Meðal gesta verða forsætisráðherra, fyrrum forsetar, biskup og formenn flokka. Meðal þeirra sem voru afboðaðir eru níu úr fjölskyldu forsetans, ríkislögreglustjóri, dómkirkjuprestar og ráðherrar aðrir en þeir sem gegna flokksformennsku.

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV