Bikar og Evrópusæti undir á Wembley

epa07610959 Pierre-Emerick Aubameyang (L) of Arsenal and David Luiz of Chelsea in action during the UEFA Europa League final between Chelsea FC and Arsenal FC at the Olympic Stadium in Baku, Azerbaijan, 29 May 2019.  EPA-EFE/ZURAB KURTSIKIDZE
 Mynd: EPA

Bikar og Evrópusæti undir á Wembley

01.08.2020 - 10:05
Úrslitaleikur ensku bikarkeppninnar í fótbolta fer fram á Wembley í Lundúnum í dag. Tvö lið frá bresku höfuðborginni munu þar eigast við; Arsenal og Chelsea.

Liðin eigast við í úrslitaleiknum klukkan 16:30 á Wembley í dag. Þjálfarar beggja liða tóku við stjórnartaumum síns liðs fyrir innan við ári síðan og eiga möguleika á að vinna fyrsta stóra titilinn í starfi.

Frank Lampard vann bikarinn fjórum sinnum sem leikmaður Chelsea en hann stýrði liðinu í fjórða sæti deildarinnar á sinni fyrstu leiktíð sem knattspyrnustjóri þess. Liðið mun því leika í Meistaradeild Evrópu í haust.

Spánverjinn Mikel Arteta tók við liði Arsenal seint í desember af landa sínum Unai Emery og þurfti að gera sér áttunda sæti deildarinnar að góðu. Arsenal missti því af Evrópusæti í gegnum deildarkeppnina en getur með sigri í dag hlotið sæti í Evrópudeildinni á næstu leiktíð. Vinni Chelsea bikarinn færist það sæti hins vegar yfir í deildarkeppnina, til Úlfanna sem höfnuðu í sjöunda sæti.

Arteta vann tvo bikartitla sem leikmaður Arsenal, árin 2013 og 2014, en var nýlega hættur til að gerast aðstoðarþjálfari Pep Guardiola hjá Manchester City þegar Arsenal vann síðast, árið 2017.

Þá hafði Arsenal, undir stjórn Arsene Wenger, einmitt betur gegn Chelsea, sem þá var stýrt af Antonio Conte, í bikarúrslitum. Alexis Sánchez og Aaron Ramsey, sem báðir leika í dag á Ítalíu, skoruðu mörk Arsenal í 2-1 sigri Skyttanna. Lærisveinar Conte bættu fyrir bikarúrslitatapið með því að vinna titilinn árið eftir þegar Eden Hazard skoraði sigurmark Chelsea í 1-0 sigri á Manchester United í úrslitum.

Arsenal og Chelsea mættust einnig í bikarúrslitum árið 2002. En þá var, líkt og 2017, Arsene Wenger að stýra Arsenal gegn ítölskum stjóra Chelsea, Claudio Ranieri. Frank Lampard, núverandi þjálfari Chelsea, spilaði þá allan leikinn fyrir þá bláklæddu rétt eins og Eiður Smári Guðjohnsen er Arsenal vann 2-0 sigur. Ray Parlour og Freddie Ljungberg skoruðu þá tvö glæsileg mörk til að tryggja Arsenal bikarinn.

Það eru einu tvö skiptin sem liðin hafa ást við innbyrðis í úrslitaleik bikarkeppninnar. Chelsea vann þó síðasta úrslitaleik sem liðin léku, í Evrópudeildinni síðasta vor, árið 2019. Chelsea var þá undir stjórn Ítalans Maurizio Sarri og vann öruggan 4-1 sigur á lærisveinum Emerys í Baku í Aserbaídsjan. Áhugavert verður að sjá hvort Chelsea vinni annan úrslitaleik liðanna í röð eða hvort Arsenal vinni þriðja bikarúrslitaleikinn við Chelsea á þessari öld.