Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Segir ólíklegt að Landspítali fái meira fé í ár

Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV
Ólíklegt er að aukið fjármagn verði sett í rekstur Landspítala í ár. Kanna þarf hvort ekki sé hægt að nýta fjármuni spítalans betur og þar eru mikil tækifæri til hagræðingar. Þetta segir Haraldur Benediktsson, varaformaður fjárlaganefndar Alþingis, í Morgunblaðinu í dag.

Í grein blaðsins segir að bókhald Landspítala hafi, það sem af er ári, einkennst mjög af kórónuveirufaraldrinum. Farið hafi verið í kostnaðarsamar framkvæmdir og víðtækar skimanir og greiningar hafi verið gerðar. Þá megi gera ráð fyrir að ýmis áhrif faraldursins eigi eftir að koma fram.

„Það verður til dæmis aukinn kostnaður vegna sjúkraþjálfunar og af annarri framhaldsmeðferð,“ segir Haraldur í grein Morgunblaðsins. „Síðan hefur þurft að ráðast í miklar fjárfestingar og fara í greiningar og sýnatökur, þannig að viðbótarkostnaður verður einhver.“

Haraldur segir í greininni að kanna þurfi forgangsröðun þeirra fjármuna sem spítalinn hefur yfir að ráða. Miklir möguleikar séu til þess að nýta fjármuni betur.