Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Reglur um grímunotkun í Strætó kynntar á morgun

31.07.2020 - 19:43
Mynd: Birgir Þór Harðarson / RÚV
Mikil rekistefna um hvort strætófarþegar skuli bera grímur hefur ruglað marga í ríminu í dag. Bílstjórar hafa meinað grímulausu fólki inngöngu þvert á yfirlýsingar stjórnenda Strætó, sem hafa nú beðið sóttvarnayfirvöld að skera úr um málið.

Víða í Evrópu hefur grímuskyldu verið komið á, oftast einungis í verslunum og almenningssamgöngum. Annars staðar, eins og í nokkrum héruðum Spánar og Ítalíu, er íbúum skylt að nota grímu við öll tilefni. Norðurlönd hafa hins vegar hingað til ekki sett reglur um grímunotkun og skipað sér þar í hóp með Hvíta-Rússlandi og Eistlandi, og Litáen og Lettlandi þar sem slíkar reglur voru en hafa verið afnumdar.

Íslensk stjórnvöld urðu í gær fyrst stjórnvalda á Norðurlöndum til að setja reglur um notkun hlífðargríma. Fimm til tíu prósent Norðurlandabúa bera grímur á almannafæri samanborið við sjötíu til áttatíu prósent annars staðar í heiminum.

Samkvæmt reglunum sem kynntar voru í gær er fólki skylt að nota grímur þegar ekki er unnt að halda tveggja metra fjarlægð, í öllu áætlunarflugi, í farþegaferjum og öðrum almenningssamgöngum þar sem ferðir eru almennt undir hálftíma. Stjórnvöld hafa hingað til mælt gegn daglegri notkun gríma. 

Talsverð óvissa hefur verið um hvort nota eigi grímur í Strætó. Upprunalega stóð til að skylda alla farþega til að bera grímur í strætisvögnum en um hádegi í dag ákváðu stjórnendur fyrirtækisins að það myndi hvorki vera tveggja metra regla né grímuskylda í strætó þar sem ekki væri hægt að tryggja tveggja metra regluna í strætisvögnum og þar sem lunginn úr ferðunum væri undir hálftíma.

Þrátt fyrir þetta voru nokkur dæmi þess að vagnstjórar vísuðu grímulausum farþegum á dyr þar sem þeir vissu ekki af breytingunum. Enn frekari vendingar urðu í málinu síðdegis þegar Strætó ákvað, eftir mjög léleg samskipti við sóttvarnayfirvöld að sögn upplýsingafulltrúa fyrirtækisins, að það kæmi í hlut almannavarna að kynna á upplýsingafundi á morgun hvort farþegar yrðu skyldaðir til að bera grímu. Þangað til gildi hvorki tveggja metra regla né grímuskylda í vögnunum. Ljóst er þó að grímuskylda verður hjá landsbyggðarstrætó, sem Vegagerðin rekur, og sér um strætisvagna utan höfuðborgarsvæðisins.