Neytendum stafar ekki hætta af smiti í matvælafyrirtæki

Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV
Framkvæmdastjóri heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur og forstöðumaður neytendaverndar Matvælastofnunar eru sammála um að neytendum stafi engin hætta af smiti sem greindist í gær hjá starfsmanni fyrirtækis sem flytur inn og dreifir matvælum.   

Árný Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, segist ekki hafa neinar áhyggjur af því að smit berist frá matvælafyrirtækinu til neytenda, enda hafi sóttvarnaryfirvöld gefið það út að veiran smitist ekki með matvælum.  

Fyrirtækinu bar ekki skylda til að tilkynna um smitið

Fréttastofan greindi frá því í gær að heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur hefði ekki verið tilkynnt um smitið. Aðspurð hvort fyrirtækið hefði átt að tilkynna um smitið til heilbrigðiseftilitsins segir Árný að fyrirtækjum beri ekki lagaleg skylda til þess. „Það er ekkert sem kveður á um það í matvælalöggjöfinni,“ segir hún.  

„Fyrirtækin sem eru í framleiðslu og pökkun á matvælum eru með strangt innra eftirlit sem heilbrigðiseftirlit og gæðastjórar fylgjast vel með,“ bætir hún við. Aðspurð hvort hún hvetji fyrirtæki samt til að tilkynna um COVID-19 smit meðal starfsfólks segir hún að fyrirtækjum sé ráðlagt að vera í góðu sambandi við heilbrigðiseftirlit.  

Dóra Gunnarsdóttir, forstöðumaður neytendaverndar hjá Matvælastofnun, segir sömuleiðis að ekki sé talið að smitið sé áhyggjuefni fyrir neytendur. Hún segir að fyrirtækjum beri aðeins skylda til að tilkynna mál sem beinast að matvælum. Hún bendir einnig á að samkvæmt upplýsingum frá landlæknisembættinu bendi ekkert til þess að kórónuveiran sem veldur COVID-19 smitist með matvælum.  

Eftirfarandi kemur fram á vefsíðu embættis landlæknis: 

Er hætta á því að matvæli geti borið smit? 

Ekkert bendir til þess að kórónuveiran berist með matvælum skv. áliti matvælaöryggisstofnunar Evrópu (EFSA) Opnast í nýjum glugga. COVID-19 er ekki matarborinn sjúkdómur. Þeir sem eru í einangrun ættu þó ekki að útbúa mat fyrir aðra þar sem smitleið er snertismit. 

Getur veiran borist með umbúðum matvæla? 

Það er mjög ólíklegt að smitast af COVID-19 við snertingu matvælaumbúða. Handþvottur eftir verslunarferð er samt alltaf góð venja. Fylgið leiðbeiningum um handþvott og smitvarnir. 

 

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi