Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Mótmæla frestun kosninga í Hong Kong

31.07.2020 - 16:09
epa08576526 Hong Kong Chief Executive Carrie Lam speaks during a press conference in Hong Kong, China, 31 July 2020. Lam announced the postponement of the Legislative Council elections due on September 6, citing the worsening coronavirus Covid-19 situation in the city as the primary reason.  EPA-EFE/JEROME FAVRE
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Stjórnarandstæðingar í Hong Kong saka Carrie Lam, leiðtoga heimastjórnarinnar, um að nota COVID-19 farsóttina sem blóraböggul til að fresta kosningum til héraðsþings sjálfstjórnarsvæðisins.

Carrie Lam tilkynnti í dag að kosningunum yrði frestað um eitt ár vegna mikillar fjölgunar kórónuveirutilfella að undanförnu. Hún tók fram að þetta væri hennar erfiðasta ákvörðun síðustu sjö mánuði. Hún væri einungis tekin til að tryggja öryggi almennings en hefði ekkert með stjórnmál að gera.

Kosningarnar áttu að fara fram í september. Stjórnarandstæðingar höfðu vonast til að ná meirihluta á héraðsþinginu, þar sem íbúar Hong Kong óttast margir um sjálfstæði sjálfstjórnarhéraðsins eftir að kínverska þingið samþykkti öryggislögislögin sem hefta mjög starfsemi þeirra.

Baráttufólk fyrir lýðræði tryggði sér nærri níu af hverjum tíu sætum sem í boði voru í héraðskosningum síðasta haust. Lýðræðissinnar segjast ekki vera í vafa um að ákvörðun Carrie Lam um að fresta kosningum sé af pólitískum toga. Stjórnvöld í Peking fögnuðu henni í dag. Í Washington er ákvörðunin fordæmd.

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV