Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Málin enn í vinnslu hjá Icelandair

Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór - RÚV
Ekki fást upplýsingar um gang viðræðna Icelandair við lánadrottna fyrirtækisins. Stjórnendur Icelandair stefndu á að ljúka samningum fyrir daginn í dag svo hægt væri að fara í hlutafjárútboð í ágúst. Útboðinu hefur nú þegar verið frestað tvisvar. 

Icelandair stefndi á að klára alla samninga við lánadrottna fyrirtækisins, flugleigusala, birgja, flugvélaframleiðandann Boeing og íslensk stjórnvöld fyrir lok júlí, svo hlutafjárútboð gæti hafist í ágúst.

Sjá einnig: Icelandair Group stefnir á hlutafjárútboð í ágúst

Þessar aðgerðir eru forsendan fyrir áframhaldandi starfsemi fyrirtækisins sem hefur undanfarið róið lífróður, þurft að segja upp meirihluta starfsfólks og tapað tugum milljarða. Tap félagsins á fyrri helmingi ársins eru tæpir 45 milljarðar króna, en tap upp á rúma 30 milljarða má rekja til áhrifa heimsfaraldursins. Flug Icelandair dróst saman um 97 prósent á síðasta ársfjórðungi og farþegum fækkaði um 98 prósent. 

Hluti af endurskipulagningu fyrirtækisins fyrir hlutafjárútboðið voru nýir kjarasamningar sem gerðir voru við flugvirkja, flugmenn og loks flugfreyjur, sem samþykktu samning á mánudag eftir langar og strangar viðræður. 

Sjá einnig: Stórt verkefni að endurbyggja traust 

Icelandair stefnir á að safna rúmlega 29 milljörðum króna í auknu hlutafé með hlutafjárútboðinu, sem verður opið almenningi. Undirbúningur við útboðið hófst í apríl og stefnt var á að það hæfist fimmtánda júní. Þegar ljóst var að það myndi ekki takast var því frestað og stefnt á að hefja það í byrjun júlí. Það náðist ekki heldur en í tilkynningu frá Icelandair kom fram að félagið hefði fengið jákvæð viðbrögð frá meginþorra kröfuhafa. Stefnt var á að klára samninga fyrir mánaðamótin júlí ágúst og hefja svo hlutafjárútboð í ágúst. Nú, 31. júlí, fást ekki upplýsingar frá fyrirtækinu um hvort búið er að ganga frá samningum og hvort hlutafjárútboðið hefst í ágúst eins og boðað hefur verið. Ásdís Ýr Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair, sagði í samtali við fréttastofu að málin væru í vinnslu.