Hertar reglur taka gildi á hádegi í dag

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Hertar aðgerðir stjórnvalda vegna kórónuveirufaraldursins taka gildi á hádegi í dag. Þær gilda að óbreyttu til þrettánda ágúst en staðan verður tekin daglega og metið hvort grípa þurfi til frekari aðgerða eða reglur rýmkaðar.

Ríkisstjórnin kynnti í gær sóttvarnaraðgerðir í tíu liðum til að bregðast við fjölgun kórónuveirusmita í samfélaginu á síðustu dögum. Staðfest virk smit voru í gær 39, þar af tvær hópsýkingar á höfuðborgarsvæðinu og á Akranesi. Einn var í gær lagður inn á sjúkrahús, í fyrsta sinn síðan í vor. Með því fór Landspítalinn frá óvissustigi upp á hættustig.

Sjá einnig: Hertar aðgerðir í tíu liðum

Frá og með hádegi í dag verður fjöldi einstaklinga sem má koma saman takmarkaður við hundrað en var áður fimm hundruð. Þetta kemur til með að hafa víðtæk áhrif á starfsemi fyrirtækja. Tveggja metra reglan, sem undanfarnar vikur hefur verið valkvæð, verður aftur tekin upp. Þar sem ekki verður hægt að tryggja hana verður fólk að vera með andlitsgrímu. Þá þurfa notendur almenninssamgangna að bera grímur, svo sem í flugvélum og skipum. Tvöföld sýnataka verður tekin upp hjá öllum þeim sem koma til landsins frá áhættusvæðum og mælst til þess að fólk sé í sóttkví þar til niðurstaða fæst. Í minnisblaði sóttvarnarlæknis kemur fram að beri það ekki árangur þurfi mögulega að herða aðgerðir á landamærum. 

Sjá einnig: Vonar að hægt verði að hindra aðra bylgju faraldursins

Kamilla Sigríður Jósefsdóttir, starfandi sóttvarnalæknir, vonar að aðgerðirnar sem kynntar voru í gær dugi til að koma í veg fyrir aðra bylgju kórónuveirufaraldursins. Upplýsingafundur verður á vegum Almannavarna síðar í dag þar sem farið verður yfir stöðuna. 

Þórhildur Þorkelsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi