Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Grímuskylda í strætisvögnum frá hádegi í dag

31.07.2020 - 09:39
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson
Strætó bs hefur tekið ákvörðun um að skylda farþega til að bera grímur í strætisvögnum, þrátt fyrir ummæli forsvarsmanna almannavarna í gær um að Strætó á höfuðborgarsvæðinu sé undanþeginn grímuskyldu. Þetta kemur fram í nýrri tilkynningu frá Strætó. Grímuskyldan tekur gildi klukkan 12:00 á hádegi í dag.

Á blaðamannafundi stjórnvalda í gær kom fram að „þar sem ekki er hægt að tryggja 2 metra fjarlægð milli ótengdra einstaklinga er krafist notkunar andlitsgrímu sem hylur nef og munn. Þetta á t.d. við um almenningssamgöngur, þ.m.t. innanlandsflug og farþegaferjur.“

Síðar í gær kom svo fram að Strætó á höfuðborgarsvæðinu yrði undanþeginn grímuskyldu, þar sem ferðir eru stuttar. Farþegar ættu frekar að tryggja tveggja metra bil sín á milli.

Strætó telur sig ekki geta tryggt tveggja metra fjarlægð milli farþega um borð í vögnunum og kýs því að innleiða grímuskyldu á hádegi í dag þegar nýjar reglur taka gildi

Í tilkynningunni bendir strætó fólki á leiðbeiningar almannavarna um notkun á hlífðargrímum.